Lífið

Lil Baby hand­tekinn í París vegna fíkni­efna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þeir Lil Baby og James Harden eru staddir í París í tilefni tískuvikunnar sem haldin er í borginni ár hvert.
Þeir Lil Baby og James Harden eru staddir í París í tilefni tískuvikunnar sem haldin er í borginni ár hvert. Getty/ Pierre Suu

Bandaríski rapparinn Lil Baby hefur verið handtekinn í París eftir að fíkniefni fundust í fórum hans. Hann er staddur í París með körfuboltamanninum James Harden í tilefni tískuvikunnar í París. Harden var ekki handtekinn og er ekki grunaður um nokkuð glæpsamlegt.

Hinn 26 ára gamli rappari, sem heitir réttu nafni Dominique Armani Jones, var handtekinn ásamt einum öðrum. Harden var að sögn lögreglunnar í París á staðnum en var ekki handtekinn.

Rapparinn var viðstaddur tískusýningu Balenciaga á miðvikudag en hann var svo handtekinn síðdegis í gær og hefur verið í haldi síðan. Rannsókn vegna málsins er hafin hjá lögreglunni í París.

Lil Baby hefur notið mikilla vinsælda undanfarin misseri og var hann valinn besti hip hop listamaðurinn á BET verðlaunahátíðinni í ár. Hann er þekktastur fyrir lögin Drip Too Hard og The Bigger Picture – sem er mótmælalag sem hann gaf út í kjölfar morðsins á George Floyd.

Þá hefur hann komið fram í lögum hjá listamönnum á borð við Drake, Future og Lil Wayne.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.