Innlent

Líkur á að gos fylgi hlaupi í Gríms­vötnum hafa aukist

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Björn Oddsson hjá almannavörnum.
Björn Oddsson hjá almannavörnum. Stöð 2

Ekkert varð úr hrak­spám vísinda­manna síðasta sumar þegar þeir töldu næsta víst að jökul­hlaup yrði í Gríms­vötnum það árið og því gæti mögu­lega fylgt eld­gos en þetta tvennt fer oft saman á svæðinu. Og nú er staðan sú sama – eða í raun bendir fleira til þess að gos sé í vændum, því á liðnu ári hefur safnast enn meira vatns­magn í vötnin og enn meiri kvika í kviku­hólfið.

Talið er að þegar jökul­hlaup verði eftir mikla vatns­söfnun í vötnunum og þrýstingur í kviku­hólfinu sé mikill gjósi eldstöðin. Það skýrist af því að þegar vatnið hleypur ofan af kviku­hólfinu minnkar þrýstingur á það mikið og kvikan brýtur sér leið að yfir­borði jarðar.

Mesta vatnsmagn í aldarfjórðung

Eins og er er mikill þrýstingur á kviku­hólfinu því ekki hefur mælst meira vatns­magn í Gríms­vötnum en nú síðan árið 1996 þegar stórt gos og jökul­hlaup urðu í vötnunum.

„Það eru vís­bendingar um að ís­stíflan, austan við Gríms­vötn sem að heldur vatninu inni og lækkaði tölu­vert eftir stóra hlaupið 96, hafi farið hækkandi og að vötnin geti núna safnað meira vatni en þau hafa gert,“ segir Björn Odds­son, jarð­eðlis­fræðingur og fag­stjóri hjá al­manna­vörnum í sam­tali við Vísi.

Frá síðasta Grímsvatnagosi í maí 2011. Myndin var tekin kvöldið sem gosið hófst.STÖÐ 2/EGILL AÐALSTEINSSON

„Það búast allir við jökul­hlaupi núna,“ segir hann og játar því að honum þyki lík­legra en ekki að hlaupið verði í ár en að það láti bíða mikið lengur eftir sér.

Eins og að hrista kók og taka tappann af

En því lengur sem líður án þess að það hlaupi því meiri líkur eru á að gos fylgi því. „Vegna þess að ef kviku­hólfið í Gríms­vötnum safnar alltaf meiri kviku þá er komin meiri kvika á geyminn núna en í fyrra til dæmis,“ segir Björn. „Hitt er svo að þrýsti­fallið ofan af kviku­hólfinu er meira ef við tökum meira vatn af því í einu heldur en minna.“

Hann styðst við ein­faldara og ó­vísinda­legra mynd­mál til að skýra sam­spil náttúru­fyrir­brigðanna tveggja; hlaups og goss:

„Þetta er eins og að hrista kók­flösku og skrúfa svo tappann af.“

Egill Aðalsteinsson tökumaður Stöðvar 2 flaug yfir gosstöðvarnar í Grímsvatnagosinu 2011:

Björn segir þó ó­mögu­legt að spá því hversu stórt gosið yrði. Það var mjög stórt árið 2011 en í minni kantinum árið 2004. „Þetta er bara svoldið wild­card en sagan segir okkur að það verði lítið til meðal­stórt að skala.“ Gos í Gríms­vötnum eru alltaf sprengi­gos.

Hann segir að GPS-mælir sé á svæðinu sem gefi Veður­stofunni góðan fyrir­vara áður en jökul­hlaup hefst. Svæðið sé vaktað vel.


Tengdar fréttir

Grímsvatnagos það síðasta sem alþjóðaflug þarf núna

Gulur litakóði, sem settur var á eldgosaviðvörun fyrir Grímsvötn í síðustu viku, veldur áhyggjum í flugheiminum. Einn helsti flugfréttamiðill heims segir Grímvatnagos það síðasta sem alþjóðaflugið þurfi núna ofan í heimsfaraldur kórónuveiru.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×