Lífið

Katrín létt með lunda í Eyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel fór á með Katrínu Jakobsdóttur og lundanum. Katrín hafði á orði að heimsóknin væri ein sú besta sem hún hefði farið í.
Vel fór á með Katrínu Jakobsdóttur og lundanum. Katrín hafði á orði að heimsóknin væri ein sú besta sem hún hefði farið í. Katrín Jakobsdóttir

Lundi nokkur stal senunni þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Vestmannaeyjar í dag. Katrínu virtist skemmt þrátt fyrir að lundinn virti enga goggunarröð og tæki sér stöðu á höfði hennar.

Sagt er frá heimsókninni til Eyja á opinberri Facebook-síðu Katrínar í dag. Þar lýsir hún henni sem sérstaklega eftirminnilegri.

„Í blíðskaparveðri fékk ég góðar móttökur hvert sem ég fór,“ segir forsætisráðherra.

Hún heimsótti meðal annars Þekkingarsetur Vestmannaeyja og Sjóvarmadælustöðina en skrifaði auk þess undir samstarfssamning ráðuneytisins og sýslumannsins í Vestmannaeyjum um greiningu á hvort að kynjahalli sé ða málum sem rekin eru innan stjórnsýslunnar.

Mesta lukku vakti þó þegar Katrín heimsótti mjaldrasafn í Eyjum þar sem hún hitti bæði mjaldra og lunda. Á myndskeiðum sem Katrín birti á Instagram-síðu sinni sést hvernig fulltrúi safnsins bauð lundanum til sætis á sixpensara sem hann tyllti á höfuð ráðherrans.

„Þetta hef ég aldrei gert. Þetta er bara besta heimsókn sem ég hef farið í!“ segir Katrín eftir að lundinn hristi vængina hressilega á höfði hennar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.