Innlent

Eftirför, líkamsárásir og vegabréfaþjófnaður

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tilkynnt var um tvær líkamsárásir í miðbæ Reykjavíkur í gær. 
Tilkynnt var um tvær líkamsárásir í miðbæ Reykjavíkur í gær.  Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu átti í eftirför á áttunda tímanum í gærkvöldi eftir að ökumaður bifreiðar stansaði ekki þegar lögregla gaf merki um það með bláum ljósum og hljóðmerkum. Bílnum var ekið yfir gras og eftir gangstéttum en stoppaði að lokum og reyndi þá ökumaðurinn að hlaupa af vettvangi. Ökumaðurinn, sem er ung kona, var handtekin og er hún grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Fjórir til viðbótar voru handteknir grunaðir um að hafa keyrt undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis í gærkvöld og í nótt. Þá var einn ökumaður stöðvaður vegna þess að bifreið hans var ekki tryggð og voru skráningarnúmer tekin ef bílnum. 17 ára gamall ökumaður var stöðvaður á Reykjanesbraut en hann mældist á 130 km/klst hraða en hámarkshraði er 80 km/klst. Hringt var í móður hans og tilkynning send til Barnaverndar.

Tvær líkamsárásir voru tilkynntar í miðbæ Reykjavíkur í gær. Maður í annarlegu ástandi var handtekinn á veitingastað grunaður um líkamsárás, en hann hafði veist að dyraverði. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands. Þá höfðu tveir menn ítrekað slegið mann í höfuðið og hlupust þeir svo á brott. Maðurinn, sem varð fyrir árásinni, var fluttur með sjúkrabíl á Bráðadeild til aðhlynningar.

Tveir karlmenn voru handteknir í verslunarmiðstöð í Austurbæ Reykjavíkur síðdegis í gær grunaðir um þjófnað á fatnaði og voru þeir vistaðir fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu. Tilkynnt var um innbrot og þjófnað á heimili í miðbæ Reykjavíkur. Fartölvum, vegabréfum og fleiru var stolið.

Tveir duttu af rafmagnshlaupahjóli í gær, annars vegar í Kópavogi og hins vegar í miðbæ Reykjavíkur. Allavega annar var fluttur með sjúkrabíl á Bráðadeild.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×