Innlent

Áfram hætta á gróðureldum þrátt fyrir úrkomu

Kjartan Kjartansson skrifar
Kort sem sýnir þá landshluta þar sem hættu- eða óvissustig eru í gildi vegna gróðurelda.
Kort sem sýnir þá landshluta þar sem hættu- eða óvissustig eru í gildi vegna gróðurelda. Almannavarnir

Hættustig vegna gróðurelda er enn í gildi á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir úrkomu um hvítasunnuhelgina. Áfram er spáð þurrki næstu daga ásamt talsverðum vindi. Til stendur að endurmeta stöðuna á föstudag en þá er von á úrkomu á Suðvesturlandi.

Úrkoma sem varð á höfuðborgarsvæðinu um helgina var kaflaskipt og er enn mikill þurrkur í Heiðmörk, að því er segir í tilkynningu frá almannavörnum um að hættustig sé enn í gildi vegna gróðurelda. Búist við allt að fimmtán metrum á sekúndu aðfararnótt fimmtudags. Þá er enn næturfrost í Heiðmörk og hefur gróður ekki tekið almennilega við sér þar.

Áframhaldandi hættustig er einnig á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austur-Skaftafellssýslu. Ástæðan sú sama og áður, sú litla úrkoma sem hefur komið er ekki nægileg til að bleyta jarðveginn og næturfrost á svæðinu hefur þau áhrif að gróðurinn tekur síður við sér.

Suðurnes eru áfram á óvissustigi. Árnessýsla og Rangárvallasýsla fara einnig á óvissustig þar sem bætt hefur í rigningu á því svæði, einnig hafa síðustu nætur hafa verið frostlausar. Í Vestur-Skaftafellssýslu er ástand óbreytt og ekkert viðbúnaðarstig. Almannavarnir hvetja þó alla til að fara varlega með eld þar sem og annars staðar þar sem þéttur gróður er til staðar.

Viðvarandi þurrkur hefur verið á stórum hluta landsins frá því seint í apríl. Gróðureldur sem kviknaði í Heiðmörk 4. maí er talinn sá þriðji stærsti á Íslandi í fimmtán ár.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.