Lífið

Sigurvegarinn spurður hvort hann hafi neytt kókaíns í beinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Augnablikið sem milljónir manna sáu og fengu einhverja til að geta sér til um að David væri að neyta kókaíns.
Augnablikið sem milljónir manna sáu og fengu einhverja til að geta sér til um að David væri að neyta kókaíns.

Damiano David, söngvari ítölsku sveitarinnar Måneskin, var spurður að því á blaðamannafundi eftir sigurinn í Eurovision í kvöld hvort hann hefði tekið kókaín á meðan keppni stóð í Rotterdam í kvöld.

David þvertók fyrir það og sagði að félagi hans í sveitinni hefði brotið glas. Þess vegna hefði hann hallað sér fram á borðið eins og sjá má í myndbandinu að neðan.

David og félagar voru sigurreifir á blaðamannafundinum í kvöld enda búnir að tryggja Ítalíu sinn fyrsta sigur í Eurovision síðan 1990. Hljómsveitin Måneskin fékk alls konar spurningar á blaðamannafundinum en ein vakti meiri athygli en aðrar.

Þannig er að myndbönd úr útsendingunni í kvöld hafa farið sem eldur í sinu um samfélagsmiðla þar sem David hallar sér fram á borðið með hreyfingum sem fengu einhverja til að álykta að hann væri að neyta kókaíns. 

Mögulega langsótt tilgáta en ekki meira en svo að samfélagsmiðlar drukknuðu í myndskeiðum og myndum af augnablikinu, og vangaveltum áhorfenda.

Fjölmargir Íslendingar voru þeirra á meðal og gerðu grín.

David var spurður að þessu á blaðamannafundinum eftir keppnina. „Fólk er að geta sér til um að þú hafir neytt kókaíns,“ spurði sænskur blaðamaður.

David sagði Thomas Raggi gítarleikara hafa brotið glas. Thomas staðfesti að það hefði verið tilfellið.

„Ég nota ekki fíkniefni,“ sagði David og var afdráttarlaus. Beindi hann orðum sínum til pressunnar að fara ekki að slá því upp að hann hefði neytt kókaíns. Það væri fjarri sannleikanum.

„Plís, ekki skrifa það. Ekkert kókaín.“

Svarið má sjá í upptöku af blaðamannafundinum að neðan, eftir tæpar tíu mínútur.


Tengdar fréttir

Næst­besti árangur Ís­lands frá upp­hafi

Daði og Gagnamagnið enduðu í fjórða sæti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, með lagið 10 Years. Um er að ræða næstbesta árangur Íslands í keppninni frá upphafi.

Ítalía vann Eurovision

Ítalía bar sigur úr býtum í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva með laginu Zitti e buoni með sveitinni Måneskin og fékk 524 stig.

Ís­land gaf Jaja Ding Dong tólf stig: „Play it!“

Hannes Óli Ágústsson var stigakynnir Íslands í Eurovision í kvöld. Hann er mörgum Eurovision-aðdáendum kunnur sem Olaf Yohannsson, maðurinn sem fékk ekki nóg af laginu Ja Ja Ding Dong í Eurovision-kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×