Innlent

Beðin um fara varlega eftir að smit greindist hjá gesti Sky Lagoon

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikil aðsókn hefur verið í Sky Lagoon frá því að baðlónið opnaði í lok apríl.
Mikil aðsókn hefur verið í Sky Lagoon frá því að baðlónið opnaði í lok apríl. Vísir/Vilhelm

Einstaklingur sem sótti Sky Lagoon á sunnudag hefur greinst með Covid-19. Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri baðstaðarins, staðfestir þetta og segir að rakningateymið hafi upplýst starfsfólk um stöðuna í gær.

Hún bætir við að enginn hafi verið sendur í sóttkví vegna málsins. DV greindi fyrst frá smitinu.

„Fyrirmælin frá þeim voru að láta alla gesti vita sem voru hér á sama tíma og rakningateymið óskaði eftir því að fólk færi varlega, sérstaklega með tilliti til viðkvæmra hópa, og færi í sýnatöku ef upp kæmu einhver einkenni, sama hversu mild þau væru.“

Dagný segir að strax hafi verið haft samband við umrædda gesti með tölvupósti og að áfram verði fylgst vel með stöðunni. Sky Lagoon opnaði dyr sínar í lok apríl en um er að ræða nýjan lúxus baðstað á Kársnesi í Kópavogi.

Ísland í dag kíkti í heimsókn í Sky Lagoon fyrr í mánuðinum og skoðaði baðlónið.

 Dagný segir að það hafi verið viðbúið að svona tilvik kæmi upp.

„Í svona rekstri þá þarftu að gera ráð fyrir að þetta geti komið upp og vera búin að ákveða hvað þú ætlar að gera þegar svona gerist. 

Kannski það erfiða í þessu máli er að það líða þarna þrír dagar. En það er svo sem lítið sem við getum gert annað en að viðhalda þeim hreinlætisplönum sem við erum með og eru í takt við aðstæður í þjóðfélaginu,“ segir Dagný að lokum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Fimm milljarða baðlón á Kársnesi

Fimm milljarða króna baðlón verður opnað á Kársnesi á morgun. Framkvæmdastjóri segir þetta stærstu fjárfestingu í afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu hingað til.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.