Innlent

Hækkun vaxta nú gæti verið byrjunin á vaxtahækkunarferli

Heimir Már Pétursson skrifar
Seðlabankastjóri boðar frekari vaxtahækkanir dugi hækkunin í dag ekki til að vinna á verðbólgu sem nú er talið að fari ekki niður að markmiðum bankans fyrr en um mitt næsta ár.
Seðlabankastjóri boðar frekari vaxtahækkanir dugi hækkunin í dag ekki til að vinna á verðbólgu sem nú er talið að fari ekki niður að markmiðum bankans fyrr en um mitt næsta ár. Vísir/Vilhelm

Seðlabankinn mun ekki hika við að hækka vexti meira dugi vaxtahækkun hans í dag ekki til að draga úr verðbólgu sem er langt yfir markmiði bankans. Ekki er reiknað með að verðbólgan fari niður að markmiðinu fyrr en um mitt næsta ár.

Eftir langt vaxtalækkunartímabil hækkaði Seðlabankinn meginvexti sína í dag úr 0,75 prósentum í eitt prósent vegna þrálátrar verðbólgu innanlands og í útlöndum. Hér heima vegna aukinnar neyslu og mikillar hækkunar húsnæðisverðs en vegna hækkunar hrávöruverðs ytra sem leitt hafi til aukins flutnins- og framleiðslukostnaðar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir greinilegt að tæki peningastefnunnar virki bæði til að örva og hægja á hagkerfinu. Nú þurfi að hægja aðeins á með vaxtahækkun.Stöð 2/Arnar

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að með vaxtahækkun nú eigi að reyna að hægja á hagkerfinu.

„Þá hægir vonandi aðeins á fasteignamarkaðnum. Líka öðrum þáttum. Það verður þá dýrara að taka lán og skuldsetja sig,“ segir Ásgeir. Bankann hafi öll spil á hendi til að ná niður verðbólgunni. Gangi það ekki eftir verði vextir hækkaðir enn frekar.

„Við hins vegar viljum bíða og sjá. Við trúum því að þetta séu tímabundnir þættir. En ef ekki verðum við að bregðast við. Við höfum skyldur gagnvart fólkinu í landinu. Að halda stöðugu verðlagi. Halda stöðugleika og það munum við gera.“

Þannig að ef verðbólga fer ekki að hjaðna á næstu mánuðum gæti þetta verið upphafið að vaxtahækkanaferli?

„Já, það er alveg rétt,“ segir Ásgeir Jónsson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×