Innlent

Sakar Gísla um pólitískan áróður gegn Ísrael

Samúel Karl Ólason skrifar
Gísli Marteinn Baldursson og Gunnar Bragi Sveinsson.
Gísli Marteinn Baldursson og Gunnar Bragi Sveinsson. Vísir/Vilhelm

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, sakaði Gísla Martein Baldursson um pólitískan áróður gegn Ísrael á undankvöldi Söngvakeppni evrópska sjónvarpsstöðva í kvöld.

„Öfugt við það sem margir eflaust telja, þá fjallar lag hennar: Set me free, ekki um þá Palestínumenn sem eru fangar í eigin landi við landtökubyggðir Ísraela, heldur er þetta klassískt ástarlag,“ sagði Gísli í aðdraganda þess að lag Ísraels var sýnt í kvöld.

„Við fáum hér eldvörpur og sprengjur, en áberandi minna en áður hjá Ísraelsmönnum. Hugsanlega uppteknir við að beina sprengjunum í aðrar áttir þessa dagana.“

Þetta hefur ekki fallið í kramið hjá Gunnari Braga, sem ræddi ummæli Gísla á þingfundi í kvöld, þar sem verið var að ræða frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla.

Vísaði Gunnar Bragi í „þetta Eurovision-dæmi allt saman“ og orða Gísla.

„Þar hefur komið í fréttir að þulur ríkisútvarpsins ákvað að nota tækifærið og beita pólitískum áróðri í starfi sínu þar,“ sagði Gunnar Bragi.

Hann ítrekaði að honum þætti Ísrael beitti Palestínumenn allt of mikilli hörku en spurði hvort að það þætti við hæfi að:

„Ríkisútvarp allra landsmanna. Hið hlutlausa Ríkisútvarp. Tæki afstöðu í því máli, eins og gert var í kvöld, að því virðist, samkvæmt fréttum fjölmiðla. Þar sem þessi ágæti þulur gagnrýnir, með beinum eða óbeinum hætti, Ísraela og framlag þeirra í þessari keppni. Finnst þingmanninum eðlilega að Ríkisútvarpið hafi farið fram með slíkum hætti?“ spurði Gunnar Bragi.

Beindi hann spurningu sinni að Bryndísi Haraldsdóttur.

Hún hló í pontu og sagðist ekki geta svarað þessari spurningu þar sem hún hefði ekki fylgst með samfélagsmiðlum.

Fyrr í dag var Gísli taggaður í tísti þar sem hann var hvattur til að telja upp stríðsglæpi Ísraels yfir flutningi Ísraelsmanna í kvöld. Hann svaraði og sagði kynningar sínar ekki eiga að vera pólitíska pistla. Þær ættu að vera fræðandi og skemmtilegar en væru ekki ónæmar fyrir því sem sé að gerast í heiminum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×