Lífið

Líður ekki eins og hann sé í Euro­vision lengur

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Daði Freyr ræddi við Vísi úr sóttkvínni í gegn um Zoom.
Daði Freyr ræddi við Vísi úr sóttkvínni í gegn um Zoom. vísir

Daði Freyr segir það hálf súrrealískt að vera kominn út til Hollands til að keppa í Euro­vision en vera fastur í sótt­kví. „Við erum bara búin að vera uppi á hótel­her­bergi að bíða og manni líður ekkert eins og maður sé í Euro­vision lengur. Svo á morgun eigum við bara að fara beint inn í general­prufu. Þetta er alveg súrrealískt.“

Ís­lenski hópurinn hefur verið í sótt­kví í tvo daga eftir að smit kom upp hjá með­limi hans. Hinir í hópnum fengu nei­kvætt úr sýna­töku í gær en verða að fara í aðra í fyrra­málið og fá nei­kvætt aftur til að geta stigið á svið í undan­keppninni á fimmtu­dags­kvöld.

Ekki mætt til að ganga á teppi

Hann segir sótt­kvína ekki hafa sett stórkostlegt strik í reikninginn fyrir hópinn enda eigi kepp­endur al­mennt að halda sig nokkuð til hlés vegna smit­hættu í Rotter­dam. „Það eina svona stóra er að við fengum ekki að fara á rauða dregilinn í Euro­vision. En við höfum ekkert allt of miklar á­hyggjur af því – við erum hérna til að keppa í Euro­vision en ekki til að ganga á teppi.“

Finniði fyrir miklum á­huga á at­riðinu úti?

„Já, við finnum fyrir rosa miklum á­huga. Sér­stak­lega eftir fyrstu æfinguna, hún gekk rosa vel og það er mjög vel tekið í þetta. Og fólk er mjög spennt að taka við okkur við­töl og eitt­hvað. Ég held það sé mjög góð stemmning fyrir okkur.“

Spurður hvort hann finni fyrir nokkru stressi undir afar ró­legu yfir­bragði fyrir því að koma fram í beinni fyrir framan Evrópu segist Daði vera mjög slakur. „Ég held að það séu allir í hópnum bara nokkuð slakir. Stressið kemur þegar maður er kominn upp á svið og svo rétt áður en lagið byrjar. Þegar maður er svo byrjaður að syngja að­eins þá er þetta allt í lagi held ég,“ segir hann.

„Það eru svona fimm­tán sekúndur áður en ég byrja að syngja þegar lagið er byrjað og við erum að halda sömu pósunni. Þessar fimm­tán sekúndur geta alveg liðið eins og langur tími en ég hugsa að þetta verði allt í lagi.“

Hann kveðst þá bjart­sýnn á gott gengi Ís­lands í keppninni í ár. Eins og er situr Ís­land í fjórða sæti yfir sigur­strang­legustu at­riði keppninnar hjá öllum helstu veð­bönkum. „Ég held að við eigum bara jafn miklar líkur og allir aðrir. Við setjum fókusinn á að komast í úr­slitin á laugar­daginn svo að það verði gott partý á Ís­landi á laugar­daginn. Svo sjáum við bara hvert fókusinn fer ef við komumst á­fram.“


Tengdar fréttir

Við hestaheilsu og vonast til að geta stigið á svið

Daði Freyr og félagar hans í Gagnamagninu eru á leið á hótel íslenska hópsins í Rotterdam í Hollandi eftir að hafa farið í sýnatöku vegna Covid-19. Einstaklingur í íslenska teyminu greindist með Covid-19 í dag og var hópurinn af þeim sökum allur sendur rakleiðis í sýnatöku.

Meðlimur íslenska Eurovision-hópsins með Covid

Meðlimur íslenska Eurovision-hópsins greindist með kórónuveiruna í Rotterdam í Hollandi í dag, þar sem keppnin fer fram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá EBU, Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×