Innlent

MDE stað­festi dóm Hæsta­réttar í máli kvenna sem nutu að­stoðar stað­göngu­móður

Eiður Þór Árnason skrifar
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strasbourg í Frakklandi.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strasbourg í Frakklandi. Vísir/EPA

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur staðfest úrskurð Hæstaréttar þess efnis að Þjóðskrá þurfi ekki að skrá tvær íslenskar konur, sem eignuðust dreng með aðstoð erlendrar staðgöngumóður, sem foreldra hans. Úrskurður þess efnis var birtur í dag.

Forsaga málsins er sú að konurnar, sem þá voru í hjúskap, leituðu til stofnunar í Kaliforníu í Bandaríkjunum sem hafði milligöngu um að finna staðgöngumóður fyrir þær. Gekkst staðgöngumóðirin undir tæknifrjóvgun en til þess voru notuð sæði og egg úr nafnlausum gjöfum.

Staðgöngumóðirin ól svo dreng í febrúar 2013 en með úrskurði dómstóls í Kaliforníu var kveðið á um að staðgöngumóðirin væri hvorki erfðafræðileg né lagaleg móðir barnsins heldur væru íslensku konurnar tvær einu lögmætu og fyrirhuguðu foreldrar þess. Í samræmi við það var gefið út fæðingarvottorð þar sem önnur konan var skráð faðir barnsins og hin móðir þess.

Skráður sem fósturbarn

Konurnar fluttu með drenginn til Íslands árið 2014 en þá hafnaði Þjóðskrá að skrá þær sem foreldra hans og að hann yrði skráður sem íslenskur ríkisborgari þar sem líffræðileg móðir hans væri bandarísk. Innanríkisráðuneytið staðfesti þá niðurstöðu en síðar samþykkti Alþingi að veita drengnum ríkisborgararétt.

Konurnar kærðu málið og kröfðust þess fyrir dómstólum að úrskurður innanríkisráðuneytisins yrði ógiltur. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri kröfu árið 2016 og var sá dómur staðfestur af Hæstarétti árið 2017. Í dómunum var meðal annars vísað til þess að staðgöngumæðrun væri ólögleg á Íslandi.

Drengurinn var því ekki skráður sem sonur þeirra í Þjóðskrá en konurnar sóttu á sínum tíma um að ættleiða hann. Umsókn þeirra féll síðan niður þegar þær skildu en þá var gerður fóstursamningur við aðra konuna og hefur hin konan jafnan rétt til umgengni við drenginn.

Í úrskurði Mannréttindadómstólsins kemur fram að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið í samræmi við íslensk lög og ekki brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.