Erlent

Danir sömdu um til­slakanir sem ná til nærri alls sam­fé­lagsins

Atli Ísleifsson skrifar
Danir fagna, en til stendur að afnema grímuskyldu og sem og kröfur um bólusetningarvottorð yfir sumarið.
Danir fagna, en til stendur að afnema grímuskyldu og sem og kröfur um bólusetningarvottorð yfir sumarið. EPA

Samkomulag hefur náðst á danska þinginu um verulegar tilslakanir á sóttvarnarreglum í landinu frá og með komandi föstudegi. Afléttingarnar ná til landsins alls, og langflest svið dansks samfélags í einhverri mynd, ef frá eru taldir næturklúbbar og diskótek.

DR segir frá því að samkomulag milli allra stjórnmálaflokka á danska þinginu hafi náðst í nótt, ef frá er talinn Ný borgaraflokkurinn. Háskólar opna upp á gátt, ekki er lengur hvatt til fjarvinnu á vinnustöðum og opnað er fyrir almenning að sækja gufuböð, sundlaugar, spilasali og ýmislegt fleira.

Opnað er fyrir almenning að sækja íþróttaviðburði og ýmsa aðra skipulagða tómstundastarfsemi, en í sumum tilvikum þarf að sýna fram á kórónuveiruvegabréf. Vegabréfið er smáforrit í sínaum sem sýnir fram á að viðkomandi hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku á síðustu þremur sólarhringum, hafi verið bólusettur eða þá sanni að viðkomandi hafi smitast á síðustu tveimur til tólf vikum.

Upphaflega stóð til að skólar ættu að gera tekið við 50 prósentum af hámarksfjölda, en niðurstaða samkomulagsins var að opna skólana upp á gátt.

Fólk má frá og með föstudeginum sækja dýra- og skemmtigarða heim, gegn því að sýna fram kórónuveiruvegabréf.

Þegar kemur að fjarvinnu mega 20 prósent starfsfólks mæta aftur á vinnustaði frá föstudeginum, helmingur frá 14. júní og allir frá 1. ágúst.

Grímuskyldu á að afnema í áföngum yfir sumarið, líkt og krafan um að sýna fram á kórónuveiruvegabréf. Grímuskylda skal þannig vera alveg afnumin í ágúst þegar ætlunin er að vera búin að bólusetja alla sem eru eldri en sextán ára.

Auk alls þessa hefur miðast samkomutakmarkanir nú almennt við fimmtíu manns innandyra, en hundrað utandyra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×