Enski boltinn

Jesse Lingard mögulega „skiptimynt“ í kaupunum á Sancho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland og Jadon Sancho voru aðalmennirnir þegar Borussia Dortmund varð þýskur bikarmeistari. Báðir skoruðu tvö mörk og Sancho lagði líka upp eitt mark fyrir Haaland.
Erling Haaland og Jadon Sancho voru aðalmennirnir þegar Borussia Dortmund varð þýskur bikarmeistari. Báðir skoruðu tvö mörk og Sancho lagði líka upp eitt mark fyrir Haaland. EPA-EFE/MARTIN ROSE

Jadon Sancho er áfram orðaður við Manchester United og nú gæti það hjálpað til að þýska liðið er spennt fyrir leikmanni Manchester United.

Borussia Dortmund hefur áhuga á Jesse Lingard sem hefur slegið í gegn hjá West Ham. Lingard fékk fá tækifæri hjá Ole Gunnar Solskjær og var lánaður til West Ham þar sem hann hefur blómstrað.

Enskir miðlar eru að skrifa um áhuga þýska liðsins á Jesse Lingard og það gæti vissulega hjálpað til að koma Sancho loksins í Manchester United búning sem leikmaðurinn vill sjálfur.

Jesse Lingard hefur komið að þrettán mörkum í þrettán deildarleikjum með West Ham síðan að hann kom þangað í janúar.

Manchester United hefur enn mikinn áhuga á Jadon Sancho en síðustu fréttir frá Dortmund herma að félagið vilji fá hundrað milljónir evra fyrir hann.

Lingard er metinn á um 25 milljónir evra og með því að hafa hann með í kaupunum þá myndi kaupverð Sancho lækka talsvert.

Lingard á þó bara eitt ár eftir af samningi sínum og hann er orðinn 28 ára gamall. Jadon Sancho er 21 árs og samningur hans við Dortmund rennur út sumarið 2023.

Jadon Sancho byrjaði tímabilið ekki vel en hefur verið í miklu stuði að undanförnu. Hann hefur komið að 19 mörkum í 24 deildarleikjum og skoraði tvívegis þegar Dortmund tryggði sér þýska bikarinn um helgina.

Báðir eru þeir Sancho og Lingard líklegir til að vera í EM-hóp Gareth Southgate í sumar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.