Innlent

Óvissustig nú á Norðurlandi vestra

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Slökkvilið berst við sinueld á Vatnsleysuströnd í gær.
Slökkvilið berst við sinueld á Vatnsleysuströnd í gær. Vísir/vilhelm

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi vestra. Ákvörðunin er tekin í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á svæðinu.

Hættustigi vegna gróðurelda var lýst yfir í fyrsta sinn á suðvestanverðu landinu í gær; frá Breiðafirði í vestri að Eyjafjöllum í austri.

Í tilkynningu frá almannavörnum um óvissustigið á Norðurlandi vestra segir að ákvörðunin sé byggð á því að lítið hafi rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýni heldur ekki neina úrkomu að ráði. Óvissustig almannavarna þýði að aukið eftirlit sé haft með „atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.“ 

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. „Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál,“ segir í tilkynningu.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum.


Tengdar fréttir

Sinubruni á Laugarnesi

Slökkvilið hefur verið kallað út vegna sinubruna á Laugarnesi í Reykjavík. Ekki er um að ræða mikinn eld og vinnur slökkvilið nú að því að stýra eldinum að veginum að sögn aðstoðarvarðstjóra.

Reglu­legar eftir­lits­ferðir vegna eld­hættu víða um land

Lögregla og slökkvilið á þeim svæðum þar sem almannavarnastigi vegna hættu á gróðureldum hefur verið lýst yfir hafa aukið viðbúnað sinn og eftirlit vegna þess hve hættan á gróðureldum er nú mikil. Svæðið sem um ræðir nær allt frá Eyjafjöllum í austri og vestur að Breiðafirði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×