Innlent

Hand­tekinn eftir að hafa kastað bú­slóðinni fram af svölum

Sylvía Hall skrifar
Það kom ýmislegt inn á borð lögreglu í gærkvöldi og í nótt.
Það kom ýmislegt inn á borð lögreglu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Rúmlega hundrað mál voru skráð hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt og hafði hún í nógu að snúast. Fimmtán hávaðakvartanir komu inn á borð lögreglu og voru fimm ökumenn stöðvaðir vegna vímuefnaaksturs, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Lögregla var einnig kölluð til vegna manns í Breiðholti sem var að henda búslóð sinni fram af svölum. Einhverjir munir höfðu lent á bílum nágranna hans og er maðurinn sagður hafa verið í annarlegu ástandi, en hann var vistaður í fangaklefa.

Í Árbæ var svo annar maður handtekinn vegna líkamsárásar og hótana en ekki kemur fram hvert ástand brotaþola er. Í Grafarholti var grjóti hent inn um rúðu á íbúðarhúsi en engin slys urðu á fólki.

Þá þurfti lögregla að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum, ýmist vegna hraðaksturs eða vímuefnaaksturs. Í Hafnarfirði var ökumaður stöðvaður undir áhrifum fíkniefna en sá var á ótryggðum bíl með fíkniefni meðferðis. Umferðaróhapp varð einnig í Hafnarfirði í gær þegar kerra losnaði aftan úr bíl og lenti framan á öðrum sem kom úr gagnstæðri átt, en engin slys urðu á fólki.

Samkvæmt dagbók lögreglu voru að minnsta kosti tvo mál þar sem ökumenn voru langt yfir hámarkshraða, en einn þeirra var mældur á 135 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkustund. Annar ökumaður var svo stöðvaður í Hafnarfirði á 165 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund. Báðir voru sviptir ökuréttindum til bráðabirgða.

Í hverfi 105 voru tveir handteknir vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna og voru þeir vistaðir í fangaklefum. Í sama hverfi þurfti lögregla að aðstoða starfsfólk á hóteli við að vísa tveimur karlmönnum og einni konu út sem voru í annarlegu ástandi og til vandræða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×