Innlent

Veittu ekki við­unandi leið­beiningar vegna heim­sóknar­banns

Kjartan Kjartansson skrifar
Eiginmaður konunnar hefði getað kært ákvörðunina um að synja ósk hans um undanþágu til að heimsækja hana til heilbrigðisráðuneytisins en hann var ekki upplýstur um þann rétt sinn.
Eiginmaður konunnar hefði getað kært ákvörðunina um að synja ósk hans um undanþágu til að heimsækja hana til heilbrigðisráðuneytisins en hann var ekki upplýstur um þann rétt sinn. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis og hjúkrunarheimili veittu manni sem óskaði eftir undanþágu til að geta heimsótt eiginkonu sína á hjúkrunarheimili þegar heimsóknarbann var við lýði vegna kórónuveirufaraldursins í fyrra ekki viðunandi leiðbeiningar um rétt til að kæra ákvörðunina.

Settur umboðsmaður Alþingis ritaði heilbrigðisráðherra bréf til að minna á leiðbeiningaskyldu stjórnvalda í kjölfar málsins.

Maðurinn leitaði til embættis landlæknis eftir að hjúkrunarheimilið þar sem konan hans býr synjaði honum um undanþágu frá banninu til að fá að heimsækja hana í mars í fyrra. Embættið óskaði eftir skýringum frá heimilinu og að þeim fengnum taldi það ekki ástæðu til að gera athugasemd við afgreiðsluna, að því er kemur fram í áliti umboðsmanns.

Vísaði maðurinn máli sínu til heilbrigðisráðuneytisins í janúar og gerði athugasemdir við vinnubrögð og niðurstöðu landlæknis. Ráðuneytið taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við afgreiðslu landlæknis vegna málsins.

Í framhaldinu var lögð fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna meðferðar og afgreiðslu landlæknisembættisins á erindi mannsins um að hjúkrunarheimilið hefði synjað undanþágubeiðni hans. Umboðsmaður gerði ekki efnislegar athugasemdir við niðurstöðu embættisins eða ráðuneytisins í málinu.

Aftur á móti gagnrýndi umboðsmaður að hjúkrunarheimilið, landlæknir og heilbrigðisráðuneytið hefðu átt að gera manninum ljóst fyrr að landlæknisembættið hefði ekki aðkomu að kæru vegna ákvörðun hjúkrunarheimilisins um að synja beiðni hans. Stjórnvöld hefðu ekki veitt manninum viðunandi leiðbeiningar um að hann gæti kært synjunina til ráðuneytisins.

Minnti umboðsmaður á að erindi stjórnvalda til borgaranna skuli vera nægjanlega skýr til að þeir geti gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni, ekki síst þegar teknar séu íþyngjandi stjórnvaldaákvarðanir. Skrifaðir Kjartan Bjarni Björgvinsson, settur umboðsmaður Alþingis, heilbrigðisráðherra bréf þar sem hann beindi því til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið í huga framvegis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×