Innlent

Að minnsta kosti einn í viðbót með staðfest smit í Þorlákshöfn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Umfangsmikil skimun fór fram í grunnskólanum í Þorlákshöfn í dag.
Umfangsmikil skimun fór fram í grunnskólanum í Þorlákshöfn í dag. Vísir/Egill

Fyrstu niðurstöður úr skimuninni sem fram fór í Þorlákshöfn í dag benda til þess að minnst einn þeirra sem skimaðir voru í dag hafi greinst með staðfest smit covid-19. Um tvö hundruð voru skimaðir í grunnskólanum í Þorlákshöfn í tengslum við hópsmit sem þar kom upp.

Þetta kemur fram í færslu frá Elliða Vignissyni bæjarstjóra sem hann birtir á Facebook í kvöld. Áður lá fyrir að þrettán væru í einangrun smitaðir af covid-19 og 97 voru í sóttkví. „Fyrir skömmu bárust mér upplýsingar um að komnar væru fyrstu upplýsingar úr skimun dagsins. Eitt sýni af þeim sem búið var að greina var jákvætt (staðfest Covidsmit). Því miður lágu ekki fyrir hversu stórt hlutfall væri búið að greina. Tölur um það berast vonandi fyrir hádegi á morgun,“ skrifar Elliði.

Elliði þakkar bæjarbúum fyrir að taka þátt í því verkefni að hefta frekari útbreiðslu smits í bænum.

„Engar íþróttaæfingar barna verða þessa vikuna og mun sundlaugin og ræktin verða lokuð a.m.k. fram á föstudag. Þá er bókasafnið einnig lokað og gestakoma bönnuð á öðrum stofnunum bæjarins. Leikskólinn Bergheimar veitir áfram lágmarksþjónustu. Í morgun voru einungis 3 börn mætt. Takk foreldrar fyrir að sýna í verki skilning á stöðunni,“ skrifar Elliði.

Hann kveðst einnig vera hrærður yfir samstöðu og krafti bæjarbúa. „Ég tel mig skilja það betur núna hvernig það er að vera knattspyrnustjóri hjá Barcelona, besta félagsliði í heimi. Ég er nefnilega bæjarstjóri í besta bæ í heimi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×