Innlent

Tófa blandar sér í hóp hinna meintu fávita

Jakob Bjarnar skrifar
Í morgun skottaðist tófa fram hjá vefmyndavél Ríkisútvarpsins eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Í morgun skottaðist tófa fram hjá vefmyndavél Ríkisútvarpsins eins og ekkert væri sjálfsagðara. skjáskot

Mannfólkið er sannarlega ekki það eina sem hefur áhuga á gosinu í Geldingadölum.

Þeir sem voru að virða fyrir sér gosið í vefmyndavél Ríkisútvarpsins í morgun ráku upp stór augu þegar þeir sáu vel haldna tófu birtast á skjánum. Þetta var um klukkan 08:40 í morgun. Hún skottaðist fram hjá myndavélinni eins og ekkert væri sjálfsagðara, lét sér hvergi bregða og virti engar lokanir.

Klippa: Refur í Geldingadölum

Facebook-hópurinn „Fávitavarpið í Geldingahrauni“, sem gengur út á að hæðast að þeim sem álpast fyrir myndavélina og glenna sig jafnvel þar, var að sjálfsögðu á vaktinni. En tófan hefur sloppið að mestu við að vera dregin sundur og saman í nöpru háði. Þar hefur myndbrotið verið birt og sparar fólk sig í skömmun. Einn þar segir reyndar að rétt sé að panta refaskyttu á staðinn en önnur segir að þarna sé „sætasti fávitinn“ mættur.

Enn meðlimur í hópnum vekur máls sá því að tófan sé feit og pattaraleg og greinilegt að nóg sé af æti fyrir hana á Reykjanesi. Þá telur einn, sem birtir mynd af Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni og jarðfræðingi af Melrakkastéttu með, að forseti Alþingis hljóti að hafa týnt gæludýrinu sínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×