Þá voru vitni við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag ítrekað spurð út í íslenskt par sem virðist hafa búið á fyrstu hæð hússins við Bræðraborgarstíg.
Vísir hefur fylgst náið með aðalmeðferðinni í dag. Hér má nálgast umfjöllun um það litla sem Marek sjálfur sagði fyrir dómi í morgun og hér má lesa ítarlega grein um frásagnir íbúa við Bræðrarborgarstíg, sem flestir voru inni í húsinu þegar eldurinn kviknaði síðdegis þann 25. júní.
Tók utan um óðamála Marek
Vinnuveitandinn, íslenskur læknir, var síðasta vitni dagsins og eina vitnið sem ekki var íbúi við Bræðraborgarstíg 1. Hann sagði Marek hafa unnið hjá sér garðvinnu um fjögurra mánaða skeið og staðið sig afburðavel. Hann hefði ekkert nema gott um Marek að segja; „Mjög vinnusamur maður, duglegur, dagfarsprúður og áreiðanlegur.“
Vinnuveitandinn hefði svo frétt af því að Marek kenndi sér meins líkamlega og væri sárlásinn. Hann hefði verið lagður inn á Landspítala en veikindin á endanum ekki reynst jafnalvarleg og talið var í fyrstu. Vinnuveitandinn sagðist hafa heimsótt Marek tvisvar á spítalann; hann hefði verið fölur og veiklulegur en annars eðlilegur. Hann hefði þó heyrt af því við lok dvalarinnar að Marek hefði verið undarlegur í fasi.
Þá sagði vinnuveitandinn frá því að 24. júní, daginn fyrir brunann, hefði Marek – þessi rólyndismaður – komið til hans. Hann hefði alls ekki verið eins og hann átti að sér að vera; talað hratt, mikið og gífurlega hátt, íklæddur litríkum sparifötum. Vinnuveitandinn hefði tekið utan um hann og sagt honum að hann gæti ekki byrjað að vinna aftur fyrr en hann jafnaði sig.
„Mjög veikur“ og ör
Daginn eftir, 25. júní, hefði vinnuveitandinn svo heyrt háreysti úti í garði hjá sér. Þar hefði Marek verið kominn að hnakkrífast við vinnufélaga sinn. Þá hefði Marek „komið á gluggann“ hjá vinnuveitandanum „alveg trítilóður“ og ör. Hann hefði hreinlega virst „mjög veikur“ og manískur – alveg ný hegðun af hálfu Mareks, að mati vinnuveitandans. Þetta hefði verið um tveimur klukkutímum áður en kveikt var í húsinu síðdegis 25. júní.
Vinnuveitandinn kvaðst ekki hafa séð Marek meira þennan dag. Það hefði ekki verið fyrr en síðar að hann sá myndir af baksvip hans í fjölmiðlum að hann áttaði sig á því að þar gæti Marek verið á ferðinni. Þá ítrekaði hann að honum hefði aldrei staðið stuggur af Marek.
Sköllótt eða snoðuð?
Við aðalmeðferðina í dag voru vitni einnig ítrekað spurð um íslenskt par sem virðist hafa búið, eða í það minnsta haldið til, á fyrstu hæð hússins. Íbúar könnuðust sumir við það en enginn þó vel. Flestir virtust þó sammála um að talsvert ónæði og vesen hefði verið á íbúum á fyrstu hæðinni; þangað hefði lögregla verið ítrekað kölluð til og mögulega einhver neysla í gangi.

Einn íbúinn kvaðst kannast við að íslenskt par hefði búið á fyrstu hæðinni. Inntur eftir því hvernig fólkið hefði litið út sagði hann stúlkuna hafa verið ljóshærða með húðflúr. Þá spurði Stefán Karl Kristjánsson verjandi Marekst hvort maður hennar hefði ef til vill verið sköllóttur eða snoðaður. Íbúinn sagðist muna eftir einum sköllóttum.
Stefán spurði nokkra íbúana að þessari sömu spurningu; hvort fólkið, eða í það minnsta einn maður, á fyrstu hæð hefði verið sköllótt eða snoðað. Enginn virtist þó geta staðfest það með óyggjandi hætti.
Draga hefði þurft konuna út
Síðasti íbúinn sem bar vitni, maður frá Afganistan, sagði að þetta íslenska par hefði verið síðasta fólkið sem lögreglan færði út úr húsinu í brunanum. Hann kvaðst telja að það hefði verið vegna þess að konan vildi ekki fara út úr húsinu.
Stefán Karl spurði þá hvort konan hefði viljað vera áfram inni í húsinu þrátt fyrir að kviknað hefði verið í því. Íbúinn kvaðst ekki viss en að hann hefði vissulega séð lögreglu reyna að draga konuna þaðan út. Íbúinn gat ekki svarað því hvort maðurinn hefði verið snögghærður eða sköllóttur og kvaðst ekki þekkja fólkið í sjón.
Ekki er ljóst hvernig þetta íslenska, og mögulega sköllótta, par tengist málinu. Stefán Karl fór þó fram á það fyrir aðalmeðferðina að lagðar yrðu fram lögregluskýrslur tveggja einstaklinga sem handteknir voru á vettvangi fyrir að torvelda störf svo kanna mætti hvernig þeir tengjast málinu.