Innlent

Hefði viljað ganga lengra til að „stoppa lekann á landamærum“

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar, segir miður að ekki hafi verið gengið lengra í frumvarpi sem samþykkt var á Alþingi í nótt við að veita sóttvarnayfirvöldum heimild til að „stöðva lekann á landamærum.“ Hún telur ósamstöðu innan ríkisstjórnarinnar um að kenna.

„Það var auðvitað nauðsynlegt að gera eitthvað en því miður þá var sóttvarnayfirvöldum ekki veitt fullnægjandi heimild til að stoppa lekann á landamærunum og ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna heilbrigðisráðherra lagði ekki í að ganga alla leið,“ segir Helga Vala.

Í stuttu máli skyldar frumvarpið fólk frá tilteknum svæðum til að fara í sóttvarnahús milli skimana eftir komuna til landsins. Þá veitir það heimildir til að takmarka komu fólks frá frá sömu svæðum nema í brýnum erindagjörðum.

„Þetta er bráðabirgðaákvæði og gildir í stuttan tíma en þetta er auðvitað skárra en að gera ekki neitt eins og við höfum horft á undanfarnar vikur.“

Eins og slökkviliðið þurfi heimild stjórnvalda til að slökkva eld

Hún hafi viljað gefa sóttvarnayfirvöldum skýra lagaheimild fyrir því að bregðast hratt við og skylda fólk til dvalar í sóttvarnarhúsi ef að nauðsynlegt þykir.

„Það var ágætt hvernig Þórólfur lýsti því sjálfur á fundi nefndarinnar í gær, að þetta væri eins og að slökkviliðsmaðurinn þyrfti að mæta og eiga samtal við stjórnmálamenn á leiðinni á vettvang þegar að húsið er að brenna. En einhvern veginn er hann ekki með heimild til að slökkva eldinn,“ segir Helga Vala.

Óboðleg vinnubrögð

Henni þyki sem ekki hafi verið tekið almennilega á þessu þrátt fyrir lagabreytingarnar. „Því miður þá virðist vera sem að ósamstaðan innan ríkisstjórnarinnar hafi valdið því að það var farin einhver svona milli leið,“ segir Helga Vala.

Hún segir að stemningin á Alþingi í nótt hafi verið í takt við þá staðreynd að þar hafi fólk verið búið að vera í vinnunni frá því snemma um morgun og fram á nóttu. „Það var svona, þráðurinn orðinn frekar stuttur í mannskapnum,“ segir Helga Vala. Ljóst sé að margir hafi verið orðnir þreyttir.

„Það er kannski það líka sem að margir gagnrýndu, að koma með þetta svona seint inn og krefjast þess að þingið myndi afgreiða þetta á einu eftirmiðdegi með fjölda, fjölda gesta, við vorum að taka inn síðustu gesti bara um ellefu leytið í gærkvöldi. Það eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð fyrir löggjafarsamkunduna.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.