Erlent

Xi vill sanngjarnari heimsstjórn

Samúel Karl Ólason skrifar
Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. AP/Ju Peng

Xi Jinping, forseti Kína, kallaði í morgun eftir því málefnum heimsins yrðu stýrt á sanngjarnari máta og að ríki heimsins legðu ekki tálma á önnur. Hann kallaði eftir aukinni ráðfærslu milli ríkja á alþjóðasviðinu og sagði að aðskilnaður og útskúfun á heimsmarkaði væri ekki jákvæð.

Þetta kom fram í ávarpi forsetans sem birt var á árlegri fjármálaráðstefnu í Asíu í morgun.

Í ávarpinu sagði Xi heiminn vilja réttlæti en ekki yfirráð fárra ríkja. Xi nefndi Bandaríkin aldrei á nafn en ljóst þykir að ávarpið beindist gegn Bandaríkjamönnum.

„Málefnum heimsins á að vera stýrt af öllum í gegnum ráðfærslu,“ sagði Xi. „Reglurnar eiga ekki að vera gerðar af einu eða fleiri ríkjum og þvingaðar á alla aðra.“

Sjá einnig: Segir að­gerðir Kín­verja í sam­ræmi við skilnings­leysi þeirra á réttar­ríkinu

Kínverjar hafa kallað eftir breytingum á stjórnkerfi heimsins og hafa krafist stærra hlutverks til marks við stöðu ríkisins sem næst stærsta hagkerfi heims. Ráðamenn íl Kína eru sömuleiðis reiðir út í Bandaríkin og segja ríkið standa í vegi Kína.

Samskipti Kína og Bandaríkjanna hafa versnað til muna á undanförnum árum.

Eins og bent er á í frétt AP fréttaveitunnar eru ummæli Xi ekki í samræmi við aðgerðir Kínverja víða. Má þar nefna ólöglegt tilkall ríkisins til nánast alls Suður-Kínahafs, og landamæradeilur við Japan, Filippseyjar, Indland og önnur ríki.

Sjá einnig: Segja Bandaríkjunum að hætta að leika sér að eldi

Xi hét því að Kína myndi aldrei sækjast eftir yfirburðum yfir öðrum ríkjum, sama hvernig ríkið þróaðist, og myndi ekki vilja víkka út landamæri sín eða taka þátt í vopnakapphlaupum.

Kína er það ríkið sem ver næst mestu til varnarmála í heiminum hafa Kínverjar staðið í umfangsmikilli nútímavæðingu á herafla sínum undanfarin ár. Þá vinnur ríkið að þróun langdrægra eldflauga, kafbáta, orrustuþota og alls konar vopnum, eins og önnur ríki.

Bandaríkjamenn hafa á undanförnum árum lýst yfir áhyggjum af hraðri þróun hers Kína.

Þá talaði Xi fyrir áframhaldandi hnattvæðingu og gegn útskúfun og aðskilnaði á heimsmarkaði. Hann sagði að það að reisa veggi í alþjóðaviðskiptum kæmi niður á öllum. Bandaríkin og önnur ríki hafa sakað Kína um ósanngjarna viðskiptahætti.

Ríkisstjórn Joes Bidens hefur ýtt á önnur lýðræðisríki að taka harðari afstöðu gagnvart Kína. Á föstudaginn ræddi Biden við Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans, og var Kína þar efst á lista umræðuefna.

Biden og Suga sammæltust um að ríkin myndu vinna saman í þróun 5G samskiptakerfa, gervigreindar og varðandi framboð hálfleiðara, svo eitthvað sé nefnt.

Í frétt Reuters-fréttaveitunnar segir að samhliða því að Bandaríkin eigi í viðræðum við önnur lýðræðisríki, efli Kínverjar samskipti sín við einræðisríki og smærri ríki í Suðaustur-Asíu, sem er efnahagslega háð Kína.


Tengdar fréttir

Bandaríkin og Kina vinna saman í loftslagsmálum

Ráðamenn í Kína og Bandaríkjunum segjast hafa komið að samkomulagi um að takast á við veðurfarsbreytingar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkin eru efst á lista ríkja sem losa hvað mestan koltvísýring út í andrúmsloftið.

Her Kína sagður gera út flota fiskiskipa

Her Kína gerir út fjölmörg blá fiskiskip sem notuð eru sem sérstök sveit til að styrkja tilkall Kínverja til hafsvæða í Asíu og þá sérstaklega Suður-Kínahafi. Tilvist þessarar sveitar hefur ekki verið viðurkennd af ráðamönnum í Peking en sérfræðingar segja hundruð skipa og þúsundir áhafnarmeðlima tilheyra henni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×