Innlent

Undir fölsku flaggi í nafni DHL og svíkja út fé í gegnum SMS

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hér til hliðar má sjá skjáskot af umræddum smáskilaboðum sem sannarlega eru ekki frá DHL heldur óprúttnum aðilum sem fara undir fölsku flaggi.
Hér til hliðar má sjá skjáskot af umræddum smáskilaboðum sem sannarlega eru ekki frá DHL heldur óprúttnum aðilum sem fara undir fölsku flaggi. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL/Skjáskot

Flutningsfyrirtækið DHL á Íslandi varar við smáskilaboðum sem send hafa verið út í nafni fyrirtækisins þar sem óprúttnir aðilar fara undir fölsku flaggi í nafni DHL og reyna að svíkja út fé. Fyrirtækið ítrekar að fyrirtækið biður viðskiptavini aldrei um kortaupplýsingar líkt og gert er á vefslóðinni sem fylgir umræddum svikaskilaboðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá DHL.

„Þetta svindl fer þannig fram að óprúttnir aðilar senda á nokkur þúsund handahófskennd íslensk símanúmer og vonast til þess að einhver af þeim eigi von á sendingu með DHL. Og þar sem yfir þúsund einstaklingar hér á landi eiga von á sendingu með DHL á hverjum degi þá eru því miður töluverðar líkur á því að einhver smelli á hlekkinn í góðri trú og gefi upp kortanúmerið sitt í framhaldinu,“ segir í tilkynningunni.

Því miður hafi reynst erfitt að stöðva svindl af þessum toga þar sem svikahrapparnir búi til sínar eigin heimasíður og símanúmerin virðast valin handahófskennt. „. Við erum í stöðugum samskiptum við netöryggisdeild DHL í Evrópu sem rannsakar málið og gerir sitt besta í að loka þessum síðum,“ segir í tilkynningu DHL.

Þá er viðskiptavinum bent á að þeir sem eiga von á sendingu með DHL fái greiðsluseðil í heimabanka. Aldrei séu send skilaboð með hlekk á vefslóð með SMS eða tölvupósti þar sem óskað er eftir kreditkortaupplýsingum.

„Ef þú átt von á sendingu með DHL sem er komin til landsins þá færðu sms frá DHL á Íslandi um að sendingin sé komin og getur þú þá valið um afhendingarmöguleika með því að smella á hlekkinn,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

„Við viljum því ítreka að fólk smelli aldrei á hlekki eða linka í skilaboðum sem virðast koma frá DHL ef beðið er um greiðsluuplýsingar. Gefið aldrei upp kreditkortaupplýsingar í gegnum hlekki því við sendum alltaf greiðsluseðil í heimabanka.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.