Innlent

Hífðu konu upp úr brunni við Lágafellskirkju

Kjartan Kjartansson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Það tók slökkvilið í Mosfellsbæ um þrjár mínútur að komast á staðinn frá því að neyðarlína fékk boð um óhappið.
Það tók slökkvilið í Mosfellsbæ um þrjár mínútur að komast á staðinn frá því að neyðarlína fékk boð um óhappið. Vísir/Hanna

Kona sem féll um tvo metra niður í brunn nærri Lágafellskirkju í Mosfellsbæ var orðin köld og þrekuð þegar slökkviliðsmenn náðu að bjarga henni upp. Samferðarfólk konunnar náði að halda henni upp úr vatni þar til slökkvilið kom á staðinn.

Fólkið var á gangi í gamalli byggð við Lágafellskirkju þegar konan féll niður um klaka ofan í brunn eða gamla rotþró, að sögn Bjarna Ingimarssonar, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Um eins og hálfs til tveggja metra fall var niður í botn brunnsins. Bjarni segir að konan hafi ekki komist að sjálfsdáðum upp og hún hafi þurft að halda sér á floti með því að svamla í vatninu sem hafi örugglega verið um frostmark. Félagar hennar náðu að halda í hana.

Slökkvilið var fljótt á staðinn og tókst slökkviliðsmanni að komast niður á sillu og koma línu utan um konuna. Þá var hægt að hífa hana upp úr prísundinni.

Bjarni segir að konan hafi verið orðin köld og þrekuð en hún hafi þó getað gengið sjálf í sjúkrabíl. Hún var svo flutt til skoðunar á sjúkrahúsi.

Sveitarfélaginu Mosfellsbæ var tilkynnt um óhappið og segir Bjarni að starfsmenn bæjarsins hafi ætlað að tryggja aðstæður á staðnum til að koma í veg fyrir að að það endurtæki sig.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.