Innlent

Vilja nýja lagasetningu strax

Snorri Másson skrifar
Ragna Sigurðardóttir er forseti Ungra jafnaðarmanna.
Ragna Sigurðardóttir er forseti Ungra jafnaðarmanna. Ljósmynd/Hari

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að Alþingi komi saman án tafar til þess að ráðast í lagasetningu sem rennir stoðum undir nauðsynlegar sóttvarnir á landamærunum. Það felur í sér að kalla þarf þingmenn heim úr páskafríi.

„Á meðan ríkt hefur víðtæk samstaða meðal landsmanna um nauðsynlegar sóttvarnir hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins hamast gegn sóttvarnareglum og ráðherrar flokksins brotið þær. Sundurlyndi og ábyrgðarleysi þingmanna Sjálfstæðisflokksins má ekki standa sóttvörnum í landinu fyrir þrifum,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu. Forseti þess er Ragna Sigurðardóttir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lýsti yfir áhyggjum af sóttvörnum á landamærunum í gær, eftir að héraðsdómur skar úr um að skylda til dvalar á sóttkvíarhóteli væri ólögmæt. Sá úrskurður var kærður og heilbrigðisráðherra hefur gefið út að á meðan úrskurðar Landsréttar er beðið, verði ekki ráðist í nýja lagasetningu.

Hringl og flumbrugangur

Ungir jafnaðarmenn eru harðorðir um stjórnarhætti ríkisstjórnarinnar í málinu.

„Undanfarin misseri hafa vinnubrögð ríkisstjórnarinnar einkennst af hringli, flumbrugangi og samráðsleysi við sóttvarnayfirvöld. Þetta hefur sett sóttvarnir í uppnám og grafið undan sátt og samstöðu í samfélaginu.

Alvarlegasta dæmið er nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um ólögmæta skyldudvöl í sóttvarnahúsi. Dómurinn og afleiðingar hans skrifast alfarið á ríkisstjórnina, ráðherra heilbrigðismála og tregðu stjórnarmeirihlutans á Alþingi til að axla pólitíska ábyrgð á sóttvarnaráðstöfunum og binda nauðsynlegar valdheimildir í lög þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar stjórnarandstöðu,“ segir í yfirlýsingunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×