Lífið

Hirti kórónuna af höfði ný­krýndrar fegurðar­­drottningar

Atli Ísleifsson skrifar
Drama á sviðinu í Colombo.
Drama á sviðinu í Colombo. Colombo Gazette

Nýkrýndur sigurvegari stærstu fegurðarsamkeppni Srí Lanka hlaut sár á höfði eftir að fyrrverandi sigurvegari keppninnar hrifsaði kórónuna af höfði hinnar nýkrýndu fegurðardrottningar. Málið hefur vakið mikla athygli á Srí Lanka og víðar.

Fegurðardrottningin Pushpika De Silva hafði nýverið unnið titilinn „Mrs Sri Lanka“ þegar atvikið átti sér stað, en keppnin var sýnd í sjónvarpi þar í landi á sunnudaginn.

Skömmu eftir að tilkynnt hafði verið um sigurvegara tók sigurvegari keppninnar árið 2019, Caroline Jurie, til máls og sagði að ekki væri hægt að krýna De Silva fegurðardrottningu þar sem hún væri fráskilin. Reglur keppninnar kæmu í veg fyrir slíkt.

Tók Jurie svo kórónuna af höfði hinnar nýkrýndu drottningar og kom henni fyrir á höfði konunnar sem hafði lent í öðru sæti keppninnar. Í sömu andrá yfirgaf De Silva sviðið.

Sjá má myndband af atvikinu í spilaranum að neðan.

Klippa: Uppnám í Mrs World keppni á Sri Lanka

BBC segir frá því að forsvarsmenn keppninnar hafi komið kórónunni aftur í hendur De Silva og fullyrða að hún sé sannarlega ekkert fráskilin, heldur hafi slitið samvistum. Þá hafi forsvarsmenn keppninnar beðið hana afsökunar á málinu.

De Silva segir frá því á Facebook að hún hafi þurft að leita á sjúkahús með sár á höfði eftir aðfarir Jurie og segist hún munu leita réttar síns vegna málsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.