Innlent

Fengu góð viðbrögð við „pop-up-kvennaathvarfi“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sigþrúður Guðmundsóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, er djúpt snortin yfir viðbrögðunum. Fjöldi ábendinga og tilboða hafi borist. 
Sigþrúður Guðmundsóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, er djúpt snortin yfir viðbrögðunum. Fjöldi ábendinga og tilboða hafi borist. 

Til þess að geta tekið á móti konum og börnum í samkomubanni leitaði Kvennaathvarfið eftir húsnæði í gær. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og athvarfið því vel undirbúið fyrir komandi páskahátíð.

Kvennaathvarfið auglýsti nánar tiltekið á Facebook eftir húsnæðinu fyrir svokallað pop-up kvennaathvarf.

„Við höfum verið að leita að auka húsnæði til þess að hafa örugglega pláss fyrir allar okkar konur og börn næstu vikur. Ástæðan fyrir því er bæði sú að það hefur verið býsna mikil aðsókn undanfarið en samkomutakmarknir gera það líka að verkum að við viljum geta skipt upp hópnum upp í viðráðanlegri fjölda," segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

Páskarnir eru á næsta leyti og segir Sigþrúður hátíðirnar oft vera álagstíma. Framundan séu margir dagar þar sem starfsemin er takmarkaðri og því betra að gulltryggja að hægt sé að taka á móti öllum. Sigþrúður er afar þakklát fyrir viðbrögðin við facebook-færslunni.

„Það er segin saga þegar við í Kvennaathvarfinu biðjum um eitthvað þá rís upp her af fólki sem vill koma til hjálpar. Það er okkar mikla gæfa. Við fengum fullt af ábendingum og tilboðum í gær og erum bara að skoða það. Ég vona bara að við leysum úr þessu hratt,“ segir Sigþrúður og um leið ítrekar að pláss sé fyrir alla sem þurfa á kvennaathvarfinu að halda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×