Innlent

Sauðburður er hafinn á Suðurlandi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Systurnar fjórar frá Hvolsvelli með lömbin þrjú. Þuríður Karen, sem er þriggja ára, Dagný, sem er sex ára, síðan er það Bryndís Erla, tíu ára og Helga Dögg, sem er tólf ára.
Systurnar fjórar frá Hvolsvelli með lömbin þrjú. Þuríður Karen, sem er þriggja ára, Dagný, sem er sex ára, síðan er það Bryndís Erla, tíu ára og Helga Dögg, sem er tólf ára. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sauðburður er hafin á nokkrum bæjum á Suðurlandi því nokkur fyrirmáls lömb hafa komið í heiminn. Í Fljótshlíð eru lömb komin á allavega þremur bæjum, sem þykir heldur snemmt.

Bændurnir Helga Sigurðardóttir og Vilmundur Rúnar Ólafsson og eru sauðfjárbændur á bænum Torfastöðum í Fljótshlíð. Þegar þau komu út í fjárhús einn morguninn í vikunni brá þeim heldur betur í brún því þá voru fædd þrjú lömb, tvær gimbrar og einn hrútur. Barnabörnin á Hvolsvelli, fjórar systur voru ekki lengi að koma í heimsókn til að sjá lömbin og til að fá að halda á þeim.

„Það komu hér þrjú fyrirmáls lömb. Þær hafa náð sér í þetta áður en við tókum inn hrútana. Það er alltaf gaman að sjá lömb en ég vonast nú til að það verði ekki meira núna að sinni,“ segir Helga og bætir því við að hún viti af lömbum á tveimur bæjum í viðbót í nágrenni við sig.

Helga amma og Helga Dögg í fjárhúsinu á Torfastöðum í morgun þar sem Helga Dögg heldur á einu lambinu.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Helga Dögg Ólafsdóttir er12 ára barnabarn Helgu og Vilmundar. Hún segist koma stundum til að skoða lömbin hjá ömmu og afa sínum á vorin. „Já, ég hef alltaf jafn gaman af þeim og kindunum, ég elska lömb og kindur“, segir Helga Dögg.

Helga eldri segir sauðburð á vori skemmtilegasta tímann í sveitinni á hverju ári.

„Já, það er alltaf gaman af því. Þetta er auðvitað erfitt líka en þegar vel gengur og vel viðrar þá er þetta skemmtilegt og gefandi.“

Það er alltaf gaman þegar lömb koma í heiminn þó sauðburður byrji yfirleitt ekki fyrr en á fullum krafti í maí hjá flestum sauðfjárbændum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×