Lífið

Dor­rit vill koma á fót tón­listar­há­tíð í Geldinga­dal

Jakob Bjarnar skrifar
Dorrit hefur varpað fram hinni frumlegu hugmynd að í Geldingahrauni megi halda alþjóðlega tónlistarhátíð. Ólafur Ragnar eiginmaður hennar auglýsir eftir hugmyndum á Twitter.
Dorrit hefur varpað fram hinni frumlegu hugmynd að í Geldingahrauni megi halda alþjóðlega tónlistarhátíð. Ólafur Ragnar eiginmaður hennar auglýsir eftir hugmyndum á Twitter.

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti auglýsir eftir nafni á hátíðina. Volstock er efst á blaði.

Fyrrum forsetahjón, þau Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, hafa augun á gosstað og urðu fyrir miklum áhrifum eins og svo margir sem lagt hafa leið sína í Geldingahraun. Dorrit fékk einskonar vitrun; sá fyrir sér að þarna væri ákjósanleg staðsetning fyrir alþjóðlega tónlistarhátíð.

Dorrit, sem er ávallt með hagsmuni Íslands að leiðarljósi, setur meðal annars myllumerki, eða hið svokallaða hashtag, við hugmyndina og mynd á Instagram og tengir við Inspird by Iceland. Ekkert geldingalegt við þessa hugmynd og hlýtur að verða tekin til umfjöllunar á væntanlegum fundi þeirra sem eiga landið þar sem nú gýs.

Eiginmaður hennar, Ólafur Ragnar, sem lætur miklar hugmyndir ekki flækjast of mikið fyrir sér eftir að hafa meðal annars ýtt Norðurslóðaverkefninu úr vör, grípur boltann á lofti. Hann segir á Twitterreikningi sínum að mynd sem Dorrit birti með hugmynd sinni hafi notið mikillar og alþjóðlegrar athygli. Því sé ekki úr vegi að auglýsa eftir nafngift á hátíðina sem Ólafur Ragnar og Dorrit sjá fyrir sér að gæti orðið árlegur viðburður og dregið að þúsundir.

Ólafur Ragnar nefnir að þegar sé ein hugmynd komin fram: Volstock, sem er þá einskonar samruni Volcano og Woodstock-hátíðarinnar frægu. Forsetinn fyrrverandi kallar eftir fleiri hugmyndum á Instagramreikningi sínum og ekki stendur á svörum. Svo virðist sem ákaflega margir sjái möguleikana í þessu.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×