„Þetta er líklega lengsta mögulega gönguleiðin. En ég lagði hér og fór í vænan göngutúr,“ segir Daniel. Almannavarnir höfðu mælt með því að leggja bílum sínum á þessum slóðum því þar væru bílastæði að finna. Flestir virðast þó hafa ekið að lokun á Suðurstrandarvegi, lagt úti í kanti og gengið styttri leið.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í morgun um klukkan hálf níu vegna mannlauss bíls á þýskum númerum á þeim slóðum hvaðan fjöldi fólks lagði upp í göngu inn í Geldingadal í gær. Klukkustund síðar var leit hætt enda maðurinn kominn í leitirnar. Gerði hann lögreglu sjálfur grein fyrir því að hann væri eigandi bílsins.
„Ég fór af stað um klukkan tólf og þetta tók um þrjá tíma,“ segir Daniel í samtali við Vísi um gönguna að gosstöðvunum.

„Þetta var svo fallegt. Þetta er fyrsta virka eldgosið sem ég sé. Þetta var stórkostlegt,“ segir Daniel í samtali við Vísi.
Hann segir hafa lagt bíl sínum og lagt upp í gönguferð. Eftir langan dag á gosstöðvunum kom hann niður nærri Grindavík og ákvað að finna sér gistingu. Svo vaknaði hann í morgun og heyrði af leit vegna bíls.

„Ég taldi þetta geta verið minn bíl,“ segir Daniel. Klukkan hafi verið orðin margt í gær og hann því fundið sér gistingu.
„Ég hugsaði að ég gæti sótt bílinn nú í morgun. Svo heyrði ég af rýmingu, hugsaði um bílinn og hafði samband við lögreglu.“
Hann hefur búið hér á landi frá 2014, starfað sem leiðsögumaður meðal annars og vanur útivist og fjallgöngum. Hann sé þó alltaf að læra.