Innlent

Svæðinu við gosið lokað vegna gasmengunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gasmengun á svæðinu er komin yfir hættumörk og er mjög hættulegt að vera við gosið nú.
Gasmengun á svæðinu er komin yfir hættumörk og er mjög hættulegt að vera við gosið nú. Vísir/Vilhelm

Við mælingar í morgun kom í ljós að gasmengun er á gossvæðinu í Geldingadal og er mælingin komin upp fyrir hættumörk.

Svæðið við gosstaðinn er því lokað og er fólk beðið um að virða þá lokun að því er segir í tilkynningu frá almannavörnum. Í tilkynningunni segir jafnframt að mjög hættulegt sé að nálgast gosið eins og er.

Tilkynning almannavarna:

Við mælingar í morgun kom í ljós að gasmengun er á svæðinu og er mælingin komin upp fyrir hættumörk. Svæðið við gos staðinn er því lokað og er fólk beðið um að virða þá lokun. Mjög hættulegt er að nálgast gosið eins og er.

Mjög slæmt veður var á gosslóðum í nótt og margir sem lentu í hrakningum á leið sinni til baka af gosslóðum og nokkrir sem villtust og leita þurfti að. Fjöldahjálparstöð var opnuð í Grindavík og fólk flutt þangað áður en það gat haldið áfram til síns heima.

Gul viðvörun er í gildi á Suðurnesjum og þar með á gossvæðinu. Það er ekkert útivistar- eða ferðaveður að því er segir á vef Veðurstofu Íslands þar sem spáð er suðvestan hvassviðri eða stormi.

Hviður geta farið í allt að þrjátíu metra á sekúndu og þá er spáð slyddu eða snjóéljum og slæmu skyggni.

Viðvörun Veðurstofunnar:

„Suðvestan hvassviðri eða stormur, 15-23 m/s, hvassast á Reykjanesi síðdegis. Byljótt og dimm slyddu eða snjóél og slæmt skyggni, hviður um 30 m/s. Ekkert útivistarveður.“

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×