Innlent

Fólk streymir enn í Geldingadal og margir illa búnir

Samúel Karl Ólason og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Nokkur fjöldi fólks lagði leið sína í Geldingadal í nótt og einhverjir gistu þar í tjöldum. Þessi mynd var tekin rétt upp úr klukkan sjö.
Nokkur fjöldi fólks lagði leið sína í Geldingadal í nótt og einhverjir gistu þar í tjöldum. Þessi mynd var tekin rétt upp úr klukkan sjö. Vísir/Lillý

Fjölmargir hafa gert sér leið upp í Geldingadal í gærkvöldi og í nótt. Fólk hefur jafnvel gist í tjöldum við eldgosið en margir hafa verið illa búnir fyrir ferðalagið og einhverjir hafa örmagnast. Þá er veður við gosstað orðið slæmt.

Útlit er fyrir að hraunflæði hafi aukist í nótt.

Ingólfur Jón Ágúst Óskarsson og Jakob Þór Gíslason úr Björgunarsveitinni Ársæli, hafa staðið vaktina í Geldingadal síðan níu í gærkvöldi og segja það hafa gengið vel í samtali við fréttastofu nú í morgunsárið.

Ingólfur segir margt fólk hafa lagt leið sína í Geldingadal og það hafi verið misvel búið. Hann segir að margir hefði mátt búa sig betur undir ferðina.

Þá hafi margir gefist upp á leiðinni.

Jakob segir marga hafa lagt seint af stað. Erfitt sé að ganga um svæðið í myrkri og fólk þurfi að passa sig. Þá segir hann að sækja hafi þurft nokkra sem hafi orðið uppgefnir. Ekki marga þó.

Ingólfur segist hafa séð fólk leggja af stað seint í gærkvöldi með lítil börn og illa undirbúið.

Hér má sjá viðtal við þá Ingólf og Jakob.

Andri Snær Magnason var við eldgosið í morgun og sagði það vera ótrúlega fallegt. Þetta væri eins og bernskudraumur og hann hafði verið „starstruck“. Hann sagðist hafa séð bæði gosið í Fimmvörðuhálsi og gosið í Eyjafjallajökli en það væri mikill munur á því hve nálægt hrauninu maður kæmist nú.

Hann sagði einnig að fólk þyrfti að passa sig fyrir gönguna. Þetta væri ekki sunnudagsgöngutúr.

Vel á annað hundrað bíla eru þar sem fólk leggur af stað upp á fjallið.Vísir/Lillý


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×