Innlent

Gos hafið í Geldingadal

Sylvía Hall og Hólmfríður Gísladóttir skrifa
Gos hófst í Geldingadal við Fagradalsfjall í kvöld. Myndin er úr myndskeiði Landhelgisgæslunnar, sem flaug yfir gosstöðvarnar fyrr í kvöld.
Gos hófst í Geldingadal við Fagradalsfjall í kvöld. Myndin er úr myndskeiði Landhelgisgæslunnar, sem flaug yfir gosstöðvarnar fyrr í kvöld. Landhelgisgæslan

Eldgos er hafið í Geldingadal við Fagradalsfjall. Tilkynning þess efnis barst frá Veðurstofu Íslands til fjölmiðla klukkan 21:55 og í framhaldinu að það hefði að líkindum hafist klukkan 20:45. Lítill órói hefur sést á jarðskjálftamælum. Almannavarnir brýna fyrir fólki að vera ekki að fara ekki á staðinn.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er mjó hrauntunga sem rennur í suðsuðvestur og önnur tunga í vestur. Syðri endi tungunnar er um 2,6 km frá Suðurstrandarvegi, en sprungan sjálf er um 500 til 700 metrar. 

Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi var lokað um tíma á ellefta tímanum í kvöld. Vegirnir voru opnaðir á ný eftir að ljóst varð í hvaða átt hraunið rann. Sérfræðingar segja staðsetningu gossins afar góða og hefur gosinu verið lýst sem ræfilslegu.

Í aukafréttatíma Stöðvar 2 sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, að gosið hefði komið henni á óvart. Hún var þá nýkomin úr flugi með Landhelgisgæslunni yfir gosstöðvarnar. 

Fólk nærri mögulegu gossvæði sagðist á tíunda tímanum hafa séð ljósbjarma frá svæðinu og höfðu fréttastofu borist samskonar ábendingar. Fyrsta tilkynning barst Veðurstofu Íslands klukkan 21:20, en það var svo klukkan 21:55 sem staðfest var að eldgos væri hafið. 

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Veðurstofunni hófst gosið klukkan 20:45. 

Hér sjáum við staðsetningu gossins við í Geldingadal.Grafík/Hafsteinn



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×