Innlent

Meintur svindlari í Vestur­bænum var ó­­­svikinn björgunar­sveitar­­maður

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglu var í gærkvöld tilkynnt um mann í „fullum skrúða frá Landsbjörg“ sem gekk í hús í Vesturbænum.
Lögreglu var í gærkvöld tilkynnt um mann í „fullum skrúða frá Landsbjörg“ sem gekk í hús í Vesturbænum. Vísir/Vilhelm

Svo virðist sem fréttir af meintum svindlara, dulbúnum sem björgunarsveitarmaður í þeim tilgangi að féfletta fólk í gærkvöldi, séu stórlega ýktar. Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að þarna hafi verið ósvikinn björgunarsveitarmaður á ferðinni í hefðbundinni styrkjaumleitan í Vesturbænum.

Tilkynning um málið í dagbók lögreglu hljóðaði svo: Tilkynnt um aðila sem gekk í hús í fullum skrúða frá Landsbjörgu, bað fólk um bankanúmer, kennitölu og netfang í hverfi 107.

Fjölmiðlar réðu margir af tilkynningunni að þarna hefði mögulega verið svindlari á ferðinni, dulbúinn sem björgunarsveitarmaður til að hafa af fólki fé.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.Vísir/Vilhelm

Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við Vísi að hann hafi fyrst fengið veður af málinu gegnum fyrirspurnir fjölmiðla. Samkvæmt skoðun hans á málinu virðist það á misskilningi byggt – þarna hafi verið lögmætur björgunarsveitarmaður á ferðinni.

„Við erum að heimsækja almenning um þessar mundir og það gengur almennt vel. Við erum búin að vera að kanna þetta, við erum alla daga ársins að eiga samtal við almenning um meðal annars bakvarðaverkefnið okkar. Akkúrat núna erum við að ganga í hús í Vesturbænum og mjög líklega má rekja þessa tilkynningu til þess,“ segir Davíð Már.

„Við höfum að minnsta kosti ekki fengið upplýsingar um neitt dularfullt. Og þá hafði lögregla ekki heldur afskipti af neinum á okkar vegum í gær.“

Aðspurður segir hann að það gerist ekki oft að björgunarsveitarmenn á vegum Landsbjargar séu tilkynntir til lögreglu á þennan hátt. Þetta hafi þó gerst áður.

„Og við erum alltaf að reyna að finna leiðir til að láta betur vita af okkur fyrir fram. En í meirihluta tilfellanna er okkur tekið mjög vel.“

Uppfært klukkan 10:34:

Lögregla hefur veitt Landsbjörg upplýsingar sem staðfesta að umræddur maður var „klárlega“ á vegum björgunarsveitanna, segir Davíð Már í samtali við Vísi. „Hann var þarna að standa sína plikt að kynna þetta frábæra verkefni okkar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×