Lífið

Breyttar á­herslur sem geta fyrir­byggt hegðunar­erfið­leika ungra barna

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Berglind Sveinbjörnsdóttir er lektor og forstöðumaður meistaranáms í hagnýtri atferlisgreiningu
Berglind Sveinbjörnsdóttir er lektor og forstöðumaður meistaranáms í hagnýtri atferlisgreiningu HR

„Það virðist vera eins og það sé ákveðin pressa um að vera að fylgja ákveðinni uppeldisaðferð, eða að vera mjög meðvituð um uppeldi barna.“ segir Berglind Sveinbjörnsdóttir, lektor og forstöðumaður meistaranáms í hagnýtri atferlisgreiningu.

Uppeldi barna er málefni sem flestir láta sig varða og á þriðjudagsfyrirlestri HR og Vísis í gær fjallaði Berglind um að lesa í hegðun ungra barna og gaf einnig hagnýt ráð í uppeldi sem finna má hér neðar í fréttinni.

Berglind talaði þar meðal annars um pressuna sem fylgir foreldrahlutverkinu og getur reynst mörgum erfið.

„Þetta er mikið ábyrgðarhlutverk. En svona almennt þá er krafan sú að við eigum að reyna að ala upp sterk börn og ákveðin en þau mega samt ekki vera of frek. Þau þurfa að vera sjálfstæð en þurfa samt að geta farið að einhverju leyti eftir fyrirmælum. Við þurfum að kenna þeim mörk, en við verðum samt að passa að virða þeirra eigin mörk, leyfa persónuleikanum að njóta sín og að þau séum með greind á hvað flestum sviðum.“

Umhverfið hefur áhrif

Í erindi sínu talar Berglind um það hvað börn geta verið ólík. Sum börn þola vel að breyta rútínunni en önnur þurfa að hafa rútínuna alltaf alveg hundrað prósent. Hegðun mótast að umhverfinu og gerist ekki í tómarúmi og segir Berglind að það sé mikilvægt að hafa þetta í huga, sér í lagi varðandi hegðun barna sem er erfið eða erfitt er að takast á við.

„Ef erfiðleikar eru til staðar þá gerist sú hegðun ekki í tómarúmi, það eru líka umhverfisástæður sem geta haft áhrif á erfiða hegðun, sem auka líkur eða minnka líkur á að svona hegðun eigi sér stað. Þannig að megin punkturinn er sá að ef að hegðun er til staðar þá er einhver ástæða eða tilgangur fyrir henni.“

Berglind segir að innra umhverfi geti haft mikil áhrif á hegðun barna.

„Til dæmis ef að barn er svangt getur það aukið líkur á að barnið gráti, að það sé pirrað eða pirraður og þoli minna áreiti. Það sama má segja um þreytu. Þreyta getur haft mikil áhrif á hegðun barna. Börnin hafa minna þol fyrir ákveðnum hlutum heldur en ef þau væru útsofin. Það getur að sama skapi sýnt hegðun sem það myndi kannski aldrei sýna ef það væri vel sofið.“

Viðbrögð foreldra skipta máli

Hún segir að aðal áhrifavaldurinn á hegðun barna er þeir sem eru í kringum þau. Til að skilja það betur sé best að skoða betur hvað það er sem börnin eru að leitast eftir.

„Það sem börn þarfnast og leitast eftir, sérstaklega fyrstu árin þegar við foreldrar og umönnunaraðilar erum helsta umhverfi barnanna, er nærvera og umhyggja og svo vonandi fæði og svefn.“

Berglind segir að viðbrögð foreldra við hegðun hafi því mikið að segja um það hvernig hegðun barnanna þróast.

„Í dag er almennt talað um að hegðunarvandi er bara leið einstaklingsins til að segja okkur eitthvað, það er að tjá eitthvað. Helsta leiðin til að bæta hegðunarvanda eða bæta hann er að finna leiðir fyrir þennan einstakling til að tjá sig, finna aðra viðeigandi leið.“

Beiðni um athygli

„Ef að barnið er að fá meira eða meira vægi fyrir erfiðu hegðunina heldur en alla aðra hegðun, getur skapast ójafnvægi. Meira gildi og vægi getur komið þegar foreldrar og aðrir eru fljótari að bregðast við þegar erfiðari hegðun á sér stað, hvort sem það er að tala við barnið eða taka það úr aðstæðum.“

Berglind segir að það þurfi auðvitað stundum að bregðast við erfiðari hegðun eða að hjálpa börnum en það geti skapað samt vanda ef þetta eru þau skipti sem skapa barninu hvað mesta athygli og nálægð við foreldrana.

„Það getur verið að hegðunarvandi fari að vera beiðni og tjáning eftir athygli og nærveru.“

Foreldrar geta gert ýmislegt til að fyrirbyggja slíkan hegðunarvanda og kemur Berglind með nokkur ráð í sínu erindi. Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi frá Berglindi, sem hún útskýrir enn nánar í myndskeiðinu hér ofar í fréttinni.

Berglind gaf foreldrum nokkur hagnýt ráð í erindi sínu um hegðun barna.Vísir/Vilhelm

Áherslurnar lagaðar

„Megin punkturinn er að við verðum að vera viss um að það séu fleiri tækifæri fyrir barnið til að fá okkar athygli og nærveru en bara með hegðun sem telst vera erfið. Við þurfum að vera til staðar þegar börnin okkar eru að gera hluti sem okkur þykir kannski sjálfsagðir en bara sýna nærveru þegar þau gera það.“

Erfiðustu tímar dagsins

„Höfum í huga þessar umhverfisaðstæður, bæði ytri og innri. Til dæmis innra umhverfið, við getum búist við því sama af barni sem er svangt og þreytt og sem er vel sofið og ný búið að borða. Það að fara með þreytt barn í félagslegar aðstæður með mörgum börnum gæti til dæmis reynst erfitt. Þreytt barn verður kannski meira pirrað þegar börn taka dót af því.“

Berglind mælir með því að á tímum sem barn er líklegt á að þurfa athygli foreldris, til dæmis eftir langan leikskóladag, væri gott ef foreldri tæki sér tíma til að setjast niður með barninu. Þetta gæti til dæmis verið leikur í tíu til fimmtán mínútur eða samvera utandyra.

„Þarna getum við kannski minnkað líkur á erfiðleikum þegar líða tekur á kvöldið.“

Að stoppa skjátímann

„Aðrir tímar sem geta verið erfiðir fyrir börn eru þegar þau þurfa að hætta að gera eitthvað skemmtilegt.“

Nefnir Berglind sem dæmi síma, tölvur og sjónvarp.

„Það eru rannsóknir sem hafa sýnt að börn eiga erfitt að skipta á milli athafna, sérstaklega að skipta á milli einhvers sem er mjög skemmtilegt yfir í eitthvað sem er ekki eins skemmtilegt.“

Auðveldari skiptingar

Berglind segir að í þessum aðstæðum geti verið gott að skoða í hvaða samhengi skiptingin er og reyna að dempa skiptinguna aðeins og gera hana auðveldari fyrir barnið.

„Ég gæti séð að það sé erfitt fyrir mörg börn að hætta í símanum og fara beint í til dæmis að tannbursta. Ég tek bara tannbursta sem dæmi af því að það er eitthvað sem börnum finnst oft erfitt að gera. Þarna erum við búin að búa til mjög erfiða skiptingu og í einhverjum tilvikum gætum við þurft að dempa þessa skiptingu, til dæmis með því að setja eitthvað á milli, eitthvað sem er ekki alveg eins erfitt.“

Nefnir hún meðal annars sem dæmi bókalestur með foreldri og að leika aðeins með eitthvað annað dót.

Að bjóða upp á valkosti

„Önnur leið sem hefur reynst vel til að og fyrirbyggja hegðun og minnka erfiðleika er að gefa börnum val. Þetta ráð er sérstaklega gott ef barni finnst erfitt að gera ákveðna hluti eins og að klæða sig á morgnanna.“

Berglind segir að fyrir sum börn sé það mjög mikils virði að hafa stjórn og val í aðstæðum. Að gefa börnum val gæti fyrirbyggt erfiða hegðun og jafnvel líka aukið sjálfstæði þeirra. Stundum er ekki hægt að leyfa börnum að velja en það er þó hægt að auka val yfir daginn.

„Til dæmis getur það valið verið á milli hvaða náttfötum þau fara að sofa í, hvaða bók er lesin, úr hvaða glasi er drukkið og svo framvegis.“

Að fara eftir fyrirmælum

Í fyrirlestrinum talar Berglind einnig um mikilvægi færninnar til að fara eftir fyrirmælum. Rannsóknir sýni að algengur vandi hjá börnum sé að þau fari ekki eftir því sem þeim er sagt. Hér fyrir neðan má finna nokkur ráð fyrir foreldra sem hún nefnir að geti þjálfað þessa færni barnanna.

  • Að fækka fjölda fyrirmæla yfir daginn.
  • Að leika oftar við börnin án þess að segja þeim hvað þau eiga að vera að gera.
  • Að skoða samhengið á þeim tilvikum sem kallað er á börnin, að það sé ekki alltaf tengt einhverju erfiðu. Það þarf stundum að vera gert án þess að því fylgi því að þau séu beðin um að hætta að gera eitthvað skemmtilegt, byrja að gera eitthvað erfitt eða jafnvel að fara eitthvað.
  • Að einfalda fyrirmælin, hafa þau skýr og skiljanleg. Einnig sé gott að sýna þeim hvað ætlast er til af þeim og jafnvel æfa það saman. Sem dæmi hvernig ganga á frá leikföngum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×