Innlent

Töku­menn BBC um borð í vélar­vana bát á Horn­ströndum

Eiður Þór Árnason skrifar
Fimm farþegar voru hífðir um borð í TF-EIR.
Fimm farþegar voru hífðir um borð í TF-EIR. Landhelgisgæslan

Farþegar um borð í farþegabáti sem lak og varð vélarvana á fimmta tímanum norður af Hornströndum voru hluti af tökuliði á vegum breska ríkisútvarpsins BBC.

Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Gæslunnar, hífði fimm farþega upp úr bátnum á áttunda tímanum í kvöld og varð engum meint af. Mbl.is greindi fyrst frá ógöngum tökuliðsins en Ásgeir hefur ekki upplýsingar um í hvaða erindagjörðum það var. 

Alls voru fimm farþegar um borð í bátnum auk tveggja manna áhafnar. Áhöfnin á TF-EIR flutti jafnframt dælu um borð í farþegabátinn til að létta undir með dælunum sem fyrir voru. 

„Eins og staðan er núna þá er áhöfnin á Gísla Jóns, björgunarskipi Landsbjargar, með bátinn í togi til hafnar. Þyrlan lenti laust eftir hálf átta með farþegana sem voru hífðir frá borði en það var ákveðið að gera það til að gæta fyllsta öryggis,“ segir Ásgeir í samtali við Vísi. Lenti þyrlan með farþegana á Ísafirði áður en hún hélt suður. 

Laust eftir fjögur í dag fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynningu um að leki hefði komið að farþegabátnum og að hann væri orðinn aflvana norður af Hornströndum.

„Það var ákveðið að kalla út þyrluna og tvö björgunarskip auk þess sem öll skip í grenndinni voru beðin að halda á staðinn.“

Fiskibáturinn Otur II var fyrstur á vettvang og tók farþegabátinn fyrst í tog áður en björgunarskipið Gísli Jóns tók við drættinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×