Innlent

Þórólfur hefur skilað minnisblaði til ráðherra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur skilað minnisblaði til heilbrigðisráðherra með tillögum að nýjum sóttvarnareglum.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur skilað minnisblaði til heilbrigðisráðherra með tillögum að nýjum sóttvarnareglum. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur skilað tillögum að nýjum sóttvarnareglum til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Núverandi reglugerð gildir til og með 17. mars og nýjar reglur eiga því að taka gildi á fimmtudag.

Rætt var við Þórólf í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagði frá því að hann hefði skilað inn nýju minnisblaði.

Hann vildi lítið að gefa upp um það hvað væri í tillögunum. Þó var frekar að heyra á honum að það væru ekki miklar tilslakanir í kortunum heldur væri frekar verið að skerpa á ákveðnum hlutum.

Þórólfur sagði tillögurnar auðvitað koma í ljósi þess sem gerðist í síðustu viku þegar það kom upp hópsýking sem samanstóð af sex manneskjum.

Smitin má rekja til einstaklings sem kom til landsins í lok febrúar og var með neikvætt PCR-próf við komuna til landsins. Þá greindist hann neikvæður í fyrri landamæraskimun og fór í sóttkví eins og reglur kveða á um.

Í seinni landamæraskimun greindist hann svo jákvæður og reyndist þá vera með breska afbrigði kórónuveirunnar sem er meira smitandi en önnur afbrigði.

Síðast greindist innanlandssmit þann 10. mars en fram kom í máli Þórólfs í Bítinu í morgun að tölur úr sýnatökum gærdagsins lægju ekki alveg staðfestar fyrir.

Þannig gætum við mögulega séð fleira fólk sem sett hefur verið í sóttkví vegna innanlandssmitanna undanfarna daga smitast.

„En ég vona að okkur hafi tekist að ná utan um þetta,“ sagði Þórólfur.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.