Innlent

Ákvörðun um áfrýjun „auðvitað ekki léttvæg“

Kristín Ólafsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir það ekki hafa verið léttvæga ákvörðun að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli hennar gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur til Landsréttar. Hún hafi leitað til sérfræðinga við ákvörðunina og farið vel yfir málið.

Lilja hafði hingað til ekki tjáð sig um dóm héraðsdóms við fjölmiðla þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná af henni tali. 

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu á föstudag að Lilja hefði brotið jafnréttislög með skipan flokksbróður síns Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra. Dómurinn tók undir það mat kærunefndar jafnréttismála að ráðherra hefði vanmetið Hafdísi, sem einnig sótti um starfið.

Lilja sagði í samtali við fréttastofu eftir ríkisstjórnarfund í morgun að hún hefði leitað til tveggja sérfræðinga áður en hún tók ákvörðun um að áfrýja dómnum. Í álitum þeirra hefði komið fram að ekki hefði verið rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig Hafdísi hefði verið mismunað á grundvelli kynferðis við ráðninguna. „Þess vegna tók ég þessa ákvörðun,“ sagði Lilja.

Lilja ákvað sama dag og dómur héraðsdóms féll að áfrýja honum til Landsréttar. Því hefur verið velt upp að ákvörðunin hafi verið tekin heldur fljótt. Lilja var innt eftir viðbrögðum við þessu í morgun. Hún sagði að málið hefði verið skoðað mjög vel og hún hefði verið búin að funda með settum ríkislögmanni.

„En þetta er auðvitað ekki léttvæg ákvörðun,“ tók Lilja sérstaklega fram.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×