Innlent

Hundur féll af svölum á fimmtu hæð á Laugavegi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hundurinn lá illa slasaður og í blóði sínu eftir fall af svölum á fimmtu hæð. Hann lést síðar um daginn af sárum sínum.
Hundurinn lá illa slasaður og í blóði sínu eftir fall af svölum á fimmtu hæð. Hann lést síðar um daginn af sárum sínum. Vísir/Vilhelm

Vegfarendum sem áttu leið um Laugaveg síðdegis í gær brá nokkuð í brún þegar þeir sáu hund sem lá illa slasaður í blóði sínu. Hundurinn hafði fallið niður af svölum á fimmtu hæð og niður á götu. Hundurinn mun hafa lifað fallið af en dáið síðar um daginn af sárum sínum.

Fréttablaðið greinir frá þessu í gær en þetta staðfestir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi. Hann segir að lögreglumenn hafi flutt hundinn á dýralæknastöð á Skólavörðustígnum til að athuga hvort eitthvað væri hægt að gera fyrir dýrið.

„Það eru einhverjir vegfarendur þarna á Laugarvegi sem að verða vitni að þessu og það hefur verið lífsmark með hundinum þegar lögreglan kemur og það var farið með hann strax en það var ekki hægt að bjarga greyinu,“ segir Ásgeir.

Eigandi hundsins mun hafa verið við störf í húsinu og hafi tekið hundinn með. Samkvæmt heimildum Vísis var um að ræða stóran husky hund.

Hundurinn hafði farið út á svalir og síðan hafi eigandinn ekki vitað af honum fyrr en hann heyrði fólk hrópa niðri á götu. Þá tók eigandinn eftir því að hundurinn hafi fallið niður af svölunum og liggi í blóði sínu niðri á götu.

Málið er bókað sem slys í bókum lögreglunnar og er enginn grunaður um dýraníð með því að hafa hent hundinum niður af svölunum.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×