Innlent

Rafmagn komið aftur á í Grindavík: „Pjúra óheppni að þetta skuli gerast í Grindavík“

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Grindavík eftir að rafmagn komst aftur á í kvöld.
Frá Grindavík eftir að rafmagn komst aftur á í kvöld. Vísir/Egill

Allur Grindavíkurbær er kominn með rafmagn aftur fyrir utan eitt fyrirtæki en brunninn háspennurofi er talinn orsök rafmagnsleysisins sem hófst klukkan 13:40 í dag. Ekki er talið að bilunin tengist jarðhræringum síðustu daga.

Egill Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs HS Veitna, staðfesti við Vísi að rafmagn hefði komist á þá hluta bæjarins sem voru enn í myrkri skömmu fyrir klukkan níu í kvöld. Áður hafði rafmagni verið komið á vesturhelming bæjarins um klukkan sjö.

Varðskipið Þór var sent til Grindavíkur í kvöld ef þörf væri á varaafli. Egill segir að kerfi HS Veitna sé orðið stöðugt. Hann hafi ekki heyrt af tjóni sem hafi orðið vegna rafmagnsleysisins í bænum.

Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið í nágrenni Grindavíkur undanfarna daga og mánuði og hafa stórir skjálftar skekið bæinn. Egill segir að svo virðist sem að brunninn háspennurofi við Austurveg hafi valdið rafmagnsleysinu í dag. Hann telur ekki að það tengist jarðhræringunum.

„Bara pjúra óheppni að þetta skuli gerast í Grindavík,“ segir Egill.

Spennir í tengivirki Landsnets leysti út í tvígang vegna truflana í kerfi HS Veitna í dag. Eftir að hann komst aftur í rekstur tók þó nokkurn tíma að finna bilunina í kerfi HS Veitna. Vesturhluti bæjarins var án rafmagns í hátt í sex tíma en sá austari í tæpa átta tíma.

Uppfært 22:45 Bilun varð í dreifistöð í Hópshverfi í Grindavík á tíunda tímanum í kvöld. HS Veitur sagði í Facebook-færslu klukkan 21:37 að einhvern tíma gæti tekið að koma því í lag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×