Innlent

Hrinan ekkert einsdæmi en von á skjálftum í einhverja daga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á Reykjanesi.
Á Reykjanesi. Vísir/Vilhelm

„Þessi hrina er bara ennþá í gangi. Hún er á svipuðum slóðum og hún hefur verið, það er aðallega virkni við Fagradalsfjall,“ segir Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um stöðu mála á Reykjanesskaga.

Um kl. 8 í morgun varð 5,2 stiga jarðskjálfti og í kjölfarið fylgdu yfir 25 skjálftar yfir þrír á stærð.

„Eftir þennan skjálfta sem var 5,2 í morgun þá er eins og virknin hafi aðeins verið að færast í suðvestur og það getur bara verið í takt við spennubreytingar sem verða í kjölfar skjálftans,“ segir Krístín.

Hún segir óþægilegt að sjá virknina færast í þessa átt, nær byggð í Grindavík, en erfitt sé að spá fyrir um framhaldið. Allt svæðið sé undir og viðbúið að hrinan haldi áfram einhverja daga.

Spurð um svæðið við Brennisteinsfjöll, þar sem sérfræðingar hafa varað við 6,5 stiga skjálfta, segir hún engin merki um virkni þar en á meðan óróinn standi yfir verði fólk að vera viðbúið fleiri stórum skjálftum.

Hún ítrekar að hrinan sem nú stendur yfir sé alls ekkert einsdæmi.

„Við sjáum það alveg þegar við skoðum jarðskjálfta á síðustu öld að það hafa orðið álíka hrinur og jafnvel stærri, einmitt í Fagradalsfjalli, þannig að þetta er ekki óþekkt.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.