Innlent

Telja lík­legustu gossvæðin við Trölla­dyngju og að hraun flæði um mitt Reykja­nesið

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Samkvæmt útreikningum á hraunflæðilíkum er líklegast að hraun flæði um mitt Reykjanes verði af gosi.
Samkvæmt útreikningum á hraunflæðilíkum er líklegast að hraun flæði um mitt Reykjanes verði af gosi. HÁSKÓLI ÍSLANDS

Líklegustu eldgosasvæðin eru við Trölladyngju samkvæmt eldsuppkomuspá Eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands. Ef af gosi verður er líklegast að hraun flæði um mitt Reykjanes.

Ekkert lát er á skjálftahrinunni á Reykjanesskaga. Mesta virknin er nú norðaustan við Fagradalsfjall. Í dag hafa tæplega sextíu skjálftar mælst yfir 3,0 að stærð.

Stærsti skjálftinn reið yfir klukkan 22.38 og mældist sá 4,9 að stærð um 3 kílómetra suðvestur af Keili. Skjálftinn fannst vel á suðvesturhorni landsins, í Vestmannaeyjum, austur í Rangárvallarsýslu og upp Borgarfjörð.

Spáin breytt

Rúmlega fimm þúsund skjálftar hafa mælst á svæðinu frá því að hrinan hófst.

Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands hefur skoðað eldgosavá á Reykjanesskaga frá árinu 2001. Hópurinn birti á Facebook í kvöld breytta eldsuppkomuspá sem byggð er á rannsóknum á Reykjanesi í gegnum árin að viðbættum þeim atburðum sem áttu sér stað í dag.

Miðað við skjálfta frá hádegi í gær og fram til klukkan 17 í dag er spáin samkvæmt myndinni hér að neðan. 

Það er innan eldrauðu svæðanna sem líklegast er að eldgos verði samkvæmt spákortinu.HÁSKÓLI ÍSLANDS

„Eins og áður eru það innan eldrauðu svæðanna sem líklegast er að eldgos verði. Miðað við fyrri póst okkar hefur orðið mikil breyting á spákortinu. Líklegustu svæðin eru komi að Trölladyngju.“ segir í færslu hópsins.

Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfæðingur á Veðurstofu Íslands sagði í kvöldfréttum Stöðvar2 að enn sjáist engin merki um eldvirkni á svæðinu.

Eldfjallafræði og náttúruvárhópurinn lauk mælingum á hraunflæðilíkum í kvöld og samkvæmt þeim er líklegast að hraun flæði um mitt Reykjanes ef af gosi verður.

„Þá er útreikningum á hraunflæðilíkum lokið. Eins og áður látum við gjósa á allra líklegustu svæðunum. Miða við kortið frá fyrr í dag eru miklar breytingar, eins og við mátti búast út frá spákortinu. Nú er það fyrst og fremst Mitt Reykjanesið þar sem líklegast er að hraun flæði um. Eins og áður, því rauðari sem liturinn er því líklegra er að hraun fari þar um á nesinu.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×