Innlent

Lykilatriði að fá nýnema í staðkennslu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. vísir/Egill

Rektor Háskóla Íslands segir forgangsmál að fá nýnema í staðnám. Rýmri reglur um skólahald taka gildi á mánudag.

Samkvæmt nýjum reglum mega hundrað og fimmtíu nemendur vera saman í hverju rými og nándarmörk eru færð niður í einn metra. Þá verður blöndun milli sóttvarnahólfa verður heimil á öllum skólastigum.

„Það er verið að rýmka reglurnar, við munum sjá meira staðnám á háskólastiginu og meira félagslíf á framhaldsskólastiginu. Þannig að þetta er mikill gleðidagur,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Viðburðir tengdir félagsstarfi í grunn- og framhaldsskólum verða leyfðir í skólabyggingum og einungis þarf að bera grímur í skólum þegar ekki er unnt að viðhafa eins metra fjarlægð.

„Það þarf auðvitað að gæta að öllum sóttvörnum og ég ítreka það að við viljum ekki missa þessa stöðu frá okkur,“ segir Lilja.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.vísir/Vilhelm

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að neyðarstjórn skólans muni fara yfir útfærslu á nýjum reglum á fundi á morgun. Hann gerir ráð fyrir að fleiri nemendur fái nú að mæta í skólann.

„Það þarf náttúrulega að skipuleggja þetta eitthvað. Við höfum lagt námefnið eða misserið út þannig að þetta sé að mestu leyti rafræn kennsla. Og svo er náttúrulega eitt sem hefur gerst í millitíðinni, það er þetta flóð sem leiddi til þess að stærstu stofurnar okkar eru ekki nothæfar hér á háskólatorgi, svo það hefur áhrif á þetta,“ segir Jón Atli.

Hann segir forgangsmál að fá nýnema inn í skólann.

„Nú erum við komin í næstu viku inn í mars og þetta fyrsta ár þeirra hefur ekki verið þannig að þau hafa getað verið mikið í skólanum, þó þau hafi getað komið í verklega kensnlu. Þannig ég myndi segja að það sé lykilatriði. En síðan eru það bara eiginlega allir aðrir. Við þurfum bara að fá fólk hérna inn í skólann.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×