Enski boltinn

City ætlar að bjóða Messi 170 milljónum punda lægri samning en síðasta sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi og félagar í Barcelona fengu skell fyrir Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu í vikunni.
Lionel Messi og félagar í Barcelona fengu skell fyrir Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu í vikunni. getty/Alex Caparros

Manchester City ætlar að reyna að fá Lionel Messi frá Barcelona í sumar. Félagið er þó ekki tilbúið að bjóða honum nálægt því sömu kjör og síðasta sumar.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum ætlaði City að bjóða Messi fimm ára samning að verðmæti sex hundruð milljóna punda síðasta sumar.

Í annarri tilraun sinni til að fá Messi er City ekki tilbúið að bjóða honum „nema“ samning að verðmæti 430 milljóna punda, 170 milljónum pundum lægri en samninginn sem Argentínumaðurinn átti að fá í fyrra.

Tekjumissir vegna kórónuveirufaraldursins og hækkandi aldur Messis ku hafa áhrif á þá ákvörðun City að lækka tilboð sitt.

City ætlar að bjóða Messi tveggja ára samning með möguleika á eins árs framlengingu og svo í kjölfar þess tveggja ára samning við systurfélagið New York City í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Samningur Messis við Barcelona rennur út næsta sumar og margt bendir til þess að hann yfirgefi félagið sem hann hefur leikið með allan sinn feril. Messi hefur aðallega verið orðaður við City og Paris Saint-Germain sem vann Barcelona í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn, 1-4.

Messi, sem er 33 ára, hefur skorað tuttugu mörk í 29 leikjum fyrir Barcelona í öllum keppnum á þessu tímabili.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.