Fréttablaðið greindi frá því í forsíðufrétt í morgun að lögð hefði verið fram kæra vegna veiðiþjófnaðar á landi Seðlabankans. Blaðið hafði jafnframt eftir heimildum sínum að Ragnar Þór hefði verið í hópi þeirra sem staðnir voru að ólöglegu netalögninni. Ragnar Þór neitaði þó í samtali við blaðið að hafa nokkuð með málið að gera.
Svara væntanlega með stefnu
Ragnar Þór ræddi málið í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann sagði tímasetningu fréttarinnar athyglisverða.
„Þetta er náttúrulega bara ófrægingarherferð sem Fréttablaðið virðist vera með í gangi gagnvart mér og kannski tímasetningin athyglisverð þar sem eru kosningar í vændum hjá VR, formannskosningar,“ sagði Ragnar Þór. Tvö eru í framboði; Ragnar Þór sem sækist eftir endurkjöri og Helga Guðrún Jónasdóttir.
Ragnar kvaðst myndu funda með lögmönnum sínum vegna fréttarinnar upp úr klukkan níu í morgun. „Og við munum svara þessu væntanlega með stefnu,“ sagði hann.
„Ekki svona skítlegt“
Þá sagðist Ragnar Þór hafa verið í heimsókn á umræddu landi. Hann hefði aldrei lagt þar net eða veitt. Aðkoma hans að málinu væri úr lausu lofti gripin.
„Ég sendi á blaðamann Fréttablaðsins sem ber ábyrgð á fréttinni í gær símanúmerið hjá landeigandanum sem ég heimsótti og hann staðfesti við mig að hann bæri ábyrgð á þessu og Fréttablaðið ætti að hafa vitneskju um það. Þannig að þetta eru rakalausar dylgjur og árásir á mig,“ sagði Ragnar Þór.
„Ég bjóst nú alveg við því að eitthvað svona myndi gerast í aðdraganda formannskjörsins þannig að við vorum svo sem við því búnir að eitthvað yrði reynt. En ekki svona skítlegt.“