Innlent

Þrífættur hundur

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Tíkin Zenta á bænum Árbæjarhjáleiga, sem fer um allt á löppunum sínum þremur.
Tíkin Zenta á bænum Árbæjarhjáleiga, sem fer um allt á löppunum sínum þremur. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Tíkin Zenta er magnaður hundur á bænum Árbæjarhjáleigu í Holtum í Rangárþingi ytra því hún er aðeins með þrjár lappir en lætur það ekki aftra sig við að gera alla hluti eins og hún gerði áður þegar hún var með sínar fjórar lappir.

Zenta er níu ára Labrador en hún varð fyrir því óhappi í haust að hestur sparkaði í hana, sem varð til þess að það þurfti að fá dýralækni til að taka hægri afturlöppina. Það var erfið ákvörðun fyrir eigenda hennar en það kom þó aldrei neitt annað til greina því hún hafði ný gotið nokkrum hvolpum og þurfti að hugsa um þá.

"Já, hún fer um á þremur löppum og leikur sér að því og er ansi mögnuð. Hún var fljót að jafna sig og notar í raun vinstri löppina, hún miðjusetur hana þegar hún fer um í staðin fyrir að vera með tvær,“ segir Eiríkur Vilhelm Sigurðsson, eigandi Zentu.

„Hún var með þriggja vikna hvolpa þegar þetta gerist og var náttúrlega mjólkandi og þurfti að sinna þeim, það komu fimm hvolpar, við eigum hér tvær eftir hjá okkur,“ bætir Eiríkur við.

Það eru þær Skvísa og Rúsí, sem elska það að leika sér saman og við mömmu sína.

En er lappaleysið að há Zentu á einhvern hátt?

Eiríkur Vilhelm og Zenta eru bestu vinir og gera meira og minna alla hluti saman heima í sveitinni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Jú, auðvitað gerir það það, hún fer ekki alveg eins hratt um á þremur eins og á fjórum en hún virðist hvergi kveinka sér að finna til þannig að því leyti háir það henni ekki og svo fær hún bara verkefni við hæfi.“

En heldur Eiríkur að Zenta eigi bjarta framtíð?

„Já, það er engin spurning, hún er mjög góður heimilishundur og smalahundur og hún gerir allt svo vel, sem hún gerir.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.