Í fréttum í gær kom fram að samkvæmt útreikningum sem byggja á gögnum Fiskistofu og Hagstofunnar og hvernig útgerðin hefur gjaldfært breytilegan kostnað síðustu ár hefðu veiðigjöldin verið um tíu milljörðum lægri á árunum 2011-2017 ef núverandi lög frá 2018 hefðu gilt þá.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi svaraði í fréttum í gær að þetta væri alrangt. Hún benti á að meginmáli skipti hvaða tímabil væri skoðað. Ef eldri lög giltu ennþá hefði útgerðin greitt 3,1 milljarð í veiðigjöld 2020 í stað 4,8. Þá hefði verið greiddir 5 milljarðar fyrir árið í ár í stað 7,5 milljarða.

Síðustu þrjú ár hefur veiðigjaldið lækkað frá ári til árs en áætlað er að þessu ári megi gera ráð fyrir að þau verði um 7,5 milljarða króna en gjaldið er reiknað út frá afkomu tvö ár aftur í tímann.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir það ekki liggja ljóst fyrir hvort veiðigjaldið hafi hækkað eða lækkað þegar gjaldtakan nú er borin saman við gjaldtökuna sem var áður en lögin 2018 tóku gildi.
„Það eru skiptar skoðanir um hvort veiðigjaldið hafi hækkað eða lækkað við þessa breytingu. Það kemur ágætlega fram í þeim rökstuðningi sem fylgdi frumvarpinu sem varð að lögum 2018 hvernig þetta kerfi virkar. Það verða hins vegar alltaf deilur um það hversu hátt veiðigjaldið á að vera,“ segir Kristján.
Í núverandi lögum er veiðigjaldið hækkað frá því sem áður var og er þriðjungur af aflaverðmæti hverrar tegundar yfir árið. Síðan lögin tóku gildi 2018 getur útgerðin skráð fastan kostnað, eins og fyrningar á skipum og skipsbúnaðar og áætlaðan vaxtakostnað sem ekki var fyrir hendi í fyrri lögum. Fastur kostnaður getur haft áhrif á veiðigjald til lækkunar. Veiðigjöldin eru hins vegar ekki lengur frádráttarbær frá skatti eins og áður. Aðspurður um hvaða áhrif breytingin hafi segir Kristján.
„Ég vísa í rökstuðninginn fyrir frumvarpinu sem varð að lögum 2018 þar var farið yfir þetta með nákvæmum hætti,“ segir Kristján.
Hann segir engin áform uppi um að breyta núverandi fyrirkomulagi.
„Það sem liggur fyrir er að það er búið að festa hlutfallið sem fer af hagnaði hverrar veiðiferðar í veiðigjald. Við höfum ekki haft áform um að breyta þeim lögum,“ segir Kristján.