Lífið

Hjón á níræðisaldri hittust eftir árs aðskilnað

Sylvía Hall skrifar
Það voru fagnaðarfundir þegar Stanley og Mavis hittust eftir árs aðskilnað.
Það voru fagnaðarfundir þegar Stanley og Mavis hittust eftir árs aðskilnað. Skjáskot

Hjón á níræðisaldri hittust á ný eftir tæplega árs aðskilnað nú á dögunum. Þau Stanley og Mavis Harbour hafa verið gift í sextíu ár, en eftir að heimsóknartakmarkanir voru settar á hjúkrunarheimilum í Bretlandi gat Mavis ekki heimsótt Stanley.

Hjónin hittust síðast þann 20. febrúar á síðasta ári, en Stanley hafði flutt á hjúkrunarheimili í Bolton í september árið 2019 vegna elliglapa. Nú á dögunum flutti Mavis á sama hjúkrunarheimili vegna heilsufarsvandamála og gat því hitt eiginmann sinn á ný.

„Ég er svo glöð. Ég vil aldrei fara frá honum aftur. Mér finnst ég vera svo týnd án hans,“ sagði Mavis eftir að þau hittust á ný. Hún komst ekki hjá því að fara að gráta við endurfundina, söknuðurinn hafði verið svo mikill síðasta árið.

Samkvæmt frétt Sky News höfðu hjónin verið óaðskiljanleg frá því að þau kynntust seint á sjötta áratug síðustu aldar.

„Ég trúði því varla þegar ég sá Mavis. Þetta var eins og í draumi,“ sagði Stanley en hann hafði keypt blóm til að færa eiginkonu sinni þegar hún lauk fjórtán daga einangrun fyrir flutningana.

Aðspurð hver lykillinn að góðu og gæfuríki hjónabandi sé segir Mavis: „Lykillinn að góðu hjónabandi er málamiðlun. Alltaf ræða hlutina í þaula.“

Hér að neðan má sjá myndband af því þegar hjónin hittust á ný. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×