Innlent

„Vor­boði“ slökkvi­liðs­manna ó­venju­lega snemma á ferðinni

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Varðstjóri segir að slökkvistarf hafi gengið framar vonum og að betur hafi farið en á horfðist.
Varðstjóri segir að slökkvistarf hafi gengið framar vonum og að betur hafi farið en á horfðist. vísir/vilhelm

Fjölmennt lið slökkviliðsmanna á höfuðborgarsvæðinu var kallað út laust fyrir klukkan átta í morgun vegna sinubruna við Korpúlfsstaðaveg. Brunalykt fannst víða í borginni vegna þessa en slökkviliðið náði tökum á aðstæðum á mettíma.

Varðstjóri segir sinubruna óvenjulegan á þessum árstíma því slökkviliðsmenn líti vanalega á sinubruna sem vorboða.

Sinubruninn takmarkaðist við svæðið norðan við Korpúlfsstaði og svæðið austan við Korpúlfs-staðaveg. Kristján Sigfússon, varðstjóri, segir að betur hafi farið en á horfðist.

„Þetta gekk bara ljómandi vel hjá okkur, miðað við aðstæður. Þarna var vindur og þurr gróðurinn. Miðað við allt þá gekk þetta hratt og vel hjá okkur. Við fengum mannskap og tæki frá þremur stöðvum og náðum að setja mikið vatn á þetta og það var lykilatriði í að leysa þetta verkefni.“

Kristján segir að engin mannvirki hafi verið í hættu vegna brunans en viðurkennir honum hafi fundist útlitið slæmt þegar hann kom fyrst að vettvangi.

„Eldurinn breiddist hratt út þarna […] og var að teygja sig í áttina að Korpúlfsstöðum út af vindinum þannig að við höfðum smá áhyggjur af því að þetta myndi ná að breiðast hraðar út en það svo gerði.

Sinubrunar eru að sögn Kristjáns ekki algengir á þessum árstíma, nú um hávetur.

„Jú, þetta er óvenjulegt miðað við árstíma. Við slökkviliðsmenn lítum yfirleitt á sinubruna sem vorboða en það er nú ekki komið vor, sérstaklega miðað við annars staðar á landinu. Þetta er alveg óvenjulegt en gerist þó alveg.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.