Í frumathugunarskýrslu varðandi ofanflóðavarnir kemur fram að ekki sé unnt að verja byggðina fyrir stærri skriðum þannig að ásættanleg áhætta náist. Því hefur sveitarstjórn samþykkt að ekki verði heimiluð íbúðarbyggð á þessu svæði.
Hús við Hafnargötu 40b, 42, 42b og 44b á Seyðisfirði verða ekki lengur íbúðarhús þar sem svæðið er talið innan hættusvæðis, jafnvel eftir að ofanflóðavörnum verður komið upp á Seyðisfirði.

Oddný Björk Daníelsdóttir, íbúi við Hafnargötu 42, hefur þegar kvatt heimili sitt. Hún segir í Facebook-færslu sem hún birti fyrr í dag að hún muni sakna þess að búa þar. Nú sé húsið hins vegar ekki lengur öruggt og því þurfi þau fjölskyldan að kveðja.
„Elsku Garður! Nú er það staðfest að þú verður ekki lengur heimili okkar. Þetta er skrítin tilfinning, hún er tregafull,“ skrifar hún.
Elsku Garður! Þá er það staðfest að þú verður ekki lengur heimili okkar. Þetta er skrítin tilfinning, hún er tregafull....
Posted by Oddný Björk Daníelsdóttir on Monday, February 1, 2021
„Takk fyrir að hafa hugsað vel um okkur. Þarna bjuggum við okkur til heimili og umhverfi þar sem okkur leið vel. Andinn í húsinu er svo góður og náttúran sem umlykur þig verður alltaf í sérstöku uppáhaldi.“
„En nú ertu ekki lengur öruggur elsku Garður. Ég vona þó að þú fáir að standa á hólnum þínum um ókomna tíð og við fjölskyldan getum bent á þig og sagt: Þarna áttum við heima. Þarna leið okkur vel,“ skrifar hún
Oddný var ein þeirra sem ræddi um ofanflóðamál í nýjasta þætti Kompáss á Vísi. Húsið sem hún býr í á Seyðisfirði stendur utan við stóru skriðuna sem féll. Stór sprunga opnaðist hins vegar í hlíðinni fyrir ofan húsið og er það því ekki talið öruggt til búsetu.