Innlent

Fjölgar um einn flokk á Alþingi samkvæmt nýrri könnun

Sunna Sæmundsdóttir skrifar

Það fjölgar um einn flokk á Alþingi samkvæmt könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis á fylgi flokkanna. Sósíalistaflokkurinn kæmi nýr inn á þing og flokkarnir yrðu þá alls níu.

Maskína gerði könnunina dagana 12. til 20. janúar. Líkt og í síðustu könnunum sést að fylgi stjórnarflokkanna hefur dregist nokkuð saman frá síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með rúmlega 21 prósent fylgi, Vinstri grænir með ríflega þrettán prósent og Framsóknarflokkurinn með 9,5 prósent.

Samfylkingin er stærst stjórnarandstöðuflokka með um sautján prósent. Ólíkt niðurstöðu síðustu könnunar Maskínu fyrir Stöð 2 mælist flokkur fólksins nú inni á þingi og það gerir Sósíalistaflokkurinn einnig. 

Niðurstöður könnunar Maskínu fyrir Stöð 2.

Því myndi fjölga um einn flokk á Alþingi. Dósent í stjórnmálafræði telur nær ómögulegt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn eftir næstu kosnignar, og verði myndun þriggja flokka stjórnar erfið.

„Við gætum færst nær skandinavíska módelinu, Noregur, Danmörk og Svíþjóð, þar sem er algengara að flokkar bjóði fram saman eða segi: Við munum starfa með þessum og þessum í ríkisstjórn og minnihlutastjórnir eru líka algengari,“ segir Eva H. Önnudóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, en hún var gestur í Víglínunni á Stöð 2 í dag.

Eva H. Önnudóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins útilokar ekki að fara sjálfur í framboð fyrir flokkinn og segir ánægjulegt að samkvæmt henni verði erfitt að mynda ríkisstjórn á hægri vængnum.

„Þá nær Sjálstæðisflokkur, Viðreisn og Miðflokkur, og Framsóknarflokkur, ekki meirihluta í þessari könnun,“ sagði Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, í Víglínunni.

Könnunin fór fram dagana 12. - 20. janúar og fjöldi svarenda var 1290. Könnunin var send á þjóðhóp Maskínu (e. panel) en hann er valinn með tilviljun úr Þjóðskrá. Gögn eru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.